Dagurinn í gær hófst með guðsþjónustu og í kjölfarið var venju samkvæmt boðið upp á fjölþætta og skemmtilega dagskrá. Knattspyrnumótið er vinsælt og auk þess tók nokkur fjöldi drengja þátt í frjálsum íþróttum, mættu í listasmiðju og á smíðaverkstæðið og tóku þátt í fjölbreyttum leikjum á svæðinu. Því miður eru bátarnir enn lokaðir vegna veðurs, en við vonumst eftir að úr rætist síðar í vikunni, þó Veðurstofan sé ekki endilega á sama máli.

Hér gerðist sá óvænti viðburður að Skógarmet í langstökki í 11-13 ára aldursflokki var slegið, en um var að ræða tæplega þrjátíu ára gamalt met frá 1977.

Þegar við spurðum drengina hvort þeir hefðu áhuga á að horfa á leik Frakklands og Portúgal í gær, svöruðu 79 af 97 drengjum því játandi í matsalnum. Við ákváðum því að seinka kvöldvöku örlítið og setja upp EM-stofu hér í skóginum. Þegar til kom reyndust aðeins rétt tæplega 30 drengir halda út allan leikinn, enda fátt sem gladdi augað í fyrri hálfleik, svo drengirnir gáfust einfaldlega upp og héldu ýmist á smíðaverkstæðið eða í íþróttahúsið og tóku þátt í dagskrá þar. Þegar í ljós kom að leikurinn stefndi í framlengingu streymdu drengirnir aftur inn í EM-stofuna og óskuðu eftir að seinka kvöldvöku enn frekar. Við byrjuðum því ekki kvöldvöku fyrr en rétt um 21:30 og höfðum hana með örsniði, þar sem einungis var sungið fyrsta vers af söngvum, boðið var upp á stórkostlega fyndið örleikrit sem heitir sængin og framhaldssagan var í stysta lagi. Að kvöldvöku lokinni var haldið í kvöldkaffi og voru flestir drengir komnir í ró um kl. 23:15.

Í guðsþjónustunni hér í Vatnaskógi í gær, fjallaði hugleiðingin eða prédikunin um mikilvægi þess að kynnast ekki aðeins eigin trúarhefð heldur einnig annarra. Enda væri gagnkvæmur skilningur á okkar eigin hefðum og hefðum annarra forsenda vináttu og friðar. Hvort sem fólk er kristið, trúlaust, múslimar, hindúar eða búddistar, þá segja trúarskoðanir eða upplifanir alls ekki til um hvort viðkomandi sé góð manneskja. Það eru enda góðar manneskjur í öllum trúarbrögðum og lífskoðanahópum og öll trúarbrögð og lífskoðanir geta verið notuð til réttlætingar á slæmum hlutum.

Aðeins með því að kynnast öðrum og læra um hugmyndir þeirra, hefðir þeirra og venjur getum við skilið náunga okkar. Hugleiðingin lagði þó einnig áherslur á að þó það væri mikilvægt fyrir okkur að skilja hefðir, venjur og trúarskoðanir annarra, þá væri Vatnaskógur vettvangur fyrir fræðslu og upplifun af kristinni hefð og kristinni trú, enda á starfsfólkið á staðnum sameiginlegt að kalla sig kristið.

Enn er hægt er að nálgast myndir á slóðinni (nýjar myndir bætast við neðst/aftast): https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157670180084972

Myndir úr flokknum

https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157670180084972

Það er metnaður okkar sem störfum í Vatnaskógi að gera gott starf enn betra. Ef þú hefur ábendingar, athugasemdir eða vilt hafa samband við okkur hér í Vatnaskógi getur þú sent tölvupóst á elli@vatnaskogur.net.

Með kveðju úr Skóginum,
Halldór Elías Guðmundsson