Þegar norðaustanáttina hafði ekkert lægt í gær og enn einn bátalaus dagurinn var framundan ákváðum við að bjóða upp á ævintýraferðir á vatninu á slöngubátnum okkar, sem að öðru jöfnu er einvörðungu notaður sem öryggistæki. Drengjunum var boðið að fara í stuttar ferðir með bátaforingjanum honum Ögmundi þar sem slöngubátnum var siglt upp í ölduna á vatninu. Mörgum drengjanna fannst þetta mikið sport og ekki var verra að vökna ögn þegar öldur skullu inn í bátinn.

Annars hélt dagskráin áfram með hefðbundnum hætti. Við buðum upp á margskonar leiki, íþróttahúsið og smíðaverkstæðið voru opin, boðið var upp á frjálsar íþróttir, fjársjóðsleit og fótbolta. Framundan í dag er síðan m.a. gönguferð í klettabelti hér ofan við Vatnaskóg með frábæru útsýni yfir Svínadal og næsta nágrenni.

Umfjöllunarefni morgunstundarinnar okkar í dag var sagan um Miskunnsama samverjann, sígild og mikilvæg áminning um að væntumþykja og góðmennska er ekki bundin við rétta trúarsannfæringu. Þeir sem trúa „rétt“ gera ekki endilega það sem er rétt og þeir sem aðhyllast önnur trúarbrögð en við sjálf geta auðveldlega orðið hetjur sögunnar. Þessi dæmisaga Jesú um jaðarsettan einstakling, sem reynist síðan náungi dauðvona manns sem liggur í vegarkantinum, er frábær áminning um að spurningin um hvort við séum góðar eða slæmar manneskjur, segir lítið til um eðli okkar eða hugmyndakerfið sem við segjumst aðhyllast. Spurningin snýst fyrst og fremst um hvað við gerum þegar við stöndum frammi fyrir ákvörðuninni hvort við viljum hjálpa manneskju í neyð. Í því samhengi nefndi ég við drengina og hef svo sem gert áður að enginn er alltaf góður eða alltaf slæmur. Ég reyndi að nota Jar-Jar Binks úr Stjörnustríðsmyndunum sem dæmi um góða manneskju sem gerir slæma hluti, þegar hann leggur til að lýðveldið verði aflagt og skapar þannig aðstæður fyrir uppbyggingu keisaraveldisins, en tengingin fór fyrir ofan garð og neðan hjá allflestum drengjunum þannig að líklega er best fyrir mig að halda mig við Biblíusögur. 🙂

Enn þá að öðru. Það eru nærri 20 drengir úr Mosfellsbæ í flokknum þessa viku. Það hefur verið komið að máli við mig um möguleikann á að drengirnir úr Mosó fái að fara úr rútunni í Mosfellsbænum á leið í bæinn á fimmtudaginn. Það er vissulega hægt en þeir foreldrar sem vilja nýta sér það þurfa að senda tölvupóst á elli@vatnaskogur.net í síðasta lagi á fimmtudagsmorgun og staðfesta við mig að drengurinn þeirra eigi að fara úr í Mosfellsbænum.

Enn er hægt er að nálgast myndir á slóðinni (nýjar myndir bætast við neðst/aftast síðar í dag): https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157670180084972

Myndir úr flokknum

https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157670180084972

Það er metnaður okkar sem störfum í Vatnaskógi að gera gott starf enn betra. Ef þú hefur ábendingar, athugasemdir eða vilt hafa samband við okkur hér í Vatnaskógi getur þú sent tölvupóst á elli@vatnaskogur.net.

Með kveðju úr Skóginum,
Halldór Elías Guðmundsson