Þegar ég vaknaði í morgun (miðvikudaginn 13. júlí) var það fyrsta sem ég veitti athygli að verulega hefur dregið úr vindstyrknum hér í Vatnaskógi eftir fimm daga af stífri norðaustanátt. Það má því reikna með að bátar og vatnafjör muni verða mikilvægur hluti af þessum næstsíðasta degi hér í 6. flokki.

Við buðum drengjunum reyndar upp á að vaða og synda í ísköldu vatninu í gær, sem sumir þáðu en ef veðrið helst áfram skaplegt fram eftir degi má gera ráð fyrir að mun fleiri nýti sér tækifærið og skemmti sér á og í vatninu í dag.

Í öðrum fréttum er að í gær fór hluti hópsins í gönguferð í lítið klettabelti hér austan við sumarbúðirnar, Svínadalsdeildin í knattspyrnu kláraðist og bikarkeppnin okkar í knattspyrnu tók við, boðið var upp á fjölda frjálsra íþrótta, það var körfuboltamót í íþróttahúsinu, ýmsir hefðbundnir leikir hér á hlaðinu (t.d. ein króna), þá var brandarastund í Gamla skála, smíðaverkstæðið var opið og svo mætti lengi telja.

Til viðbótar við dagskrá við bátaskýlið verður boðið upp á knattspyrnuleik milli drengja og starfsfólks, lokakeppnir frjálsíþróttamótsins verða brekkuhlaup og hástökk, boðið verður upp á fjölbreytt verkefni í íþróttahúsinu, við munum opna heita potta þegar líður á daginn og deginum í dag líkur með veislukvöldverði og -kvöldvöku.

Öðru hvoru nefna foreldrar við mig að þeir vildu óska þess að þau gætu komið upp í Vatnaskóg og kynnst staðnum sem hefur jafn stóran sess í hjarta drengjanna þeirra og raun ber oft vitni. Mig langar af þeim sökum að benda á tvö frábær tækifæri sem Vatnaskógur býður upp á fyrir fjölskyldur. Annars vegar er vert að minnast á fjölskylduflokka sem eru nokkrum sinnum á ári í skóginum og hins vegar langar mig að benda á Sæludaga um Verslunarmannahelgina sem er vímuefnalaus hátíð hér í Vatnaskógi með fjölbreyttri dagskrá fyrir alla fjölskylduna.

Enn er hægt er að nálgast myndir á slóðinni (nýjar myndir bætast við neðst/aftast): https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157670180084972

Myndir úr flokknum

https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157670180084972

Það er metnaður okkar sem störfum í Vatnaskógi að gera gott starf enn betra. Ef þú hefur ábendingar, athugasemdir eða vilt hafa samband við okkur hér í Vatnaskógi getur þú sent tölvupóst á elli@vatnaskogur.net.

Með kveðju úr Skóginum,
Halldór Elías Guðmundsson