Margir drengir nýttu sér vatnið til skemmtunar í gær, fóru á báta, stukku út í og/eða fóru að veiða. Dagskráin var hefðbundin hér í skóginum og á kvöldvökunni heyrðu drengirnir söguna af hirðinum sem skilur 99 sauði eftir til að leita að hinum týnda. Í því samhengi var drengjunum bent á að mynd Biblíunnar af hirði er mynd af þeim sem gengur á undan flokknum og kindurnar finna öryggi í að fylgja, sem er all ólík ímynd smalans í íslenskri sveit sem rekur á undan sér hjörðina með hrópum, köllum og aðstoð góðs fjárhunds.

Nú hefur verið mikið logn í Vatnaskógi síðustu daga og því erum við nú að fást við verkefni sem við höfum verið blessunarlega laus við stóran hluta sumars, en lúsmý bitmý er mjög virkt í Vatnaskógi núna og hluti drengjanna hefur verið bitinn og örfáir þeirra njóta sérstakra vinsælda hjá mýinu.

Þetta er hluti af náttúrunni og lítið hægt að gera. Þó reynum við að vera með fyrirbyggjandi ráðstafanir eins og kostur er. Ef börnin eru sérstaklega viðkvæm mælum við með að börnin klæðist langermabolum og síðum buxum, einnig geta flugnanet eða flugnavarnarsprey komið að góðum notum. Viðbrögð hvers og eins við mýbitum geta verið mjög mismunandi og því einstaklingsbundið hvernig er best að bergðast við.

Ef bit á sér stað má búast við óþægilegum kláða sem í flestum tilfellum er hægt að róa með aloe vera kremum, Afterbite stifti og ofnæmislyfinu Histasín/Lóritín. Við bjóðum drengjunum upp á aloe vera krem og afterbite stifti eins og þarf, en höfum samband við foreldra áður en við gefum Histasín/Lóritín. Í tilfellum sem eru mjög alvarleg höfum við samráð við Heilsugæsluna á Akranesi og foreldra. Kláðinn virðist líða hjá eftir nokkra daga og bitin gróa.

Myndir úr 7. flokki

Það er metnaður okkar sem störfum í Vatnaskógi að gera gott starf enn betra. Ef þú hefur ábendingar, athugasemdir eða vilt hafa samband við okkur hér í Vatnaskógi getur þú sent tölvupóst á elli@vatnaskogur.net.

Með kveðju úr Skóginum,
Halldór Elías Guðmundsson