Fréttir af Vatnaskógi í dag eru í lengri kantinum, svo ef til vill er best að taka fram hér í upphafi að öllum líður vel. Öll dagskrá gengur eins og best er á kosið og veðrið er yndislegt.
Í gær var boðið upp á okkar vikulega Hermannaleik en það er eitt af fáum dagskrártilboðum sem allir drengirnir taka þátt í. Hermannaleikurinn er í raun aðeins tveggja liða eltingarleikur, þar sem hvort lið um sig fær armband og klemmur á upphandlegg og drengirnir keppast um að kippa klemmunum hvor af öðrum án þess að meiða andstæðinginn. Ef drengirnir missa klemmuna, geta þeir haldið heim á bækistöð liðs síns, fengið nýja klemmu og haldið áfram leiknum. Það lið sem safnar fleiri klemmum sigrar.
Í tengslum við hermannaleikinn er mikilvægt að taka fram að hér í Vatnaskógi hefur verið misvirk umræða í yfir 15 ár milli starfsfólks um hvort leikurinn sé viðeigandi í kristilegum sumarbúðum, m.a. vegna nafnsins og þess hvort hann ýti undir stríðshetjudýrkun. Þannig var hluti starfsmannanámskeiðs vorið 2001, notaðar í umræður um kosti og galla leiksins undir stjórn guðfræðimenntaðs fagaðila sem var gagnrýnin á orðanotkun og áherslur. Síðan þá hefur umræðan verið tekin upp reglulega.
Í þessu samhengi er rétt að taka fram að hernaðartengt tungutak á sér langa hefð í sögu KFUM og KFUK á Íslandi meðal annars í sálmum eins og Áfram Kristsmenn Krossmenn og Sjáið merkið, Kristur kemur. Þrátt fyrir að ég hafi verið fagaðilinn sem stýrði umræðunum fyrir nær 15 árum þá er leikurinn enn hluti af dagskránni hjá okkur og var í boði eftir hádegi í gær með þátttöku allra drengjanna á staðnum, enda er fjörið og stemmningin gífurlega mikil fyrir þessari hefð í starfinu.
Um miðjan dag í gær heimsótti okkur hópur af gömlum Skógarmönnum og Völsurum á leið að horfa á knattspyrnuleik á Akranesi, en þeir höfðu flestir verið drengir í Vatnaskógi á 6. og 7. áratug síðustu aldar og voru stoltir af því að geta enn kallað sig Skógarmenn. Þeir gengu með mér um svæðið, sungu nokkrar línur af Áfram Kristsmenn Krossmenn, skoðuðu uppbygginguna sem hefur orðið í Vatnaskógi og rifjuðu upp gamla foringjann sinn og þriggja hæða kojurnar sem voru í Gamla skála.
Skógarmaður er hver sá sem gist hefur í Vatnaskógi í tvær nætur í hefðbundnum dvalarflokki og heimsókn þeirra minnti á að flestir sem það hafa gert hafa ævilangar góðar minningar frá þessum stað sem ég hef þau forréttindi að fá að starfa á.
Þeir starfsmenn sem sjá um daglega umönnun drengjanna eru kallaðir foringjar, en hver foringi ber meginábyrgð á einu borði í matsalnum og sér um að segja drengjunum á sínu borði kvöldsögu á kvöldin, vekja drengina á morgnana, kenna þeim að fletta upp Biblíutextum á morgunstund og fylgist með vellíðan þeirra yfir daginn.
Í gær var öllu starfsfólki í Vatnaskógi að mér undanskildum boðið í þriggja rétta máltíð á Hótel Glym, sem er okkar næsti nágranni og síðan í fótboltagólf á Þórisstöðum. Til að það yrði mögulegt mættu á svæðið nokkrir eldri starfsmenn sem önnuðust kvöldmatinn, dagskrá eftir kvöldmat og kvöldvöku. Gestaforingjarnir sýndu áratugagamla takta og ég var enn og aftur minntur á hversu frábært það er að fá að taka þátt í því starfi sem hér er sinnt.
Foringjarnir dags daglega eru að öðru jöfnu ungir námsmenn á aldrinum 18-24 ára sem starfa hér á þeim árum sem þeir eru að velja sér fyrsta framtíðarstarfsvettvanginn. Gestaforingjarnir sem komu í gær hafa hins vegar valið sér starfsvettvang og það var heiður að fá að vinna í gærkvöldi með tveimur félagsráðgjöfum (Styrmi og Ásgeiri), sjúkraliða sem hefur starfað bæði á slysó og bráðageðdeild (Lárusi Páli), fyrrum umsjónarmann sjálfboðins starfs hjá Rauða Krossdeildinni í Reykjavík og smið á Grundarfirði (Hauki Árna), presti í Lindakirkju í Kópavogi (Guðna Má), starfsmanni SOS barnahjálpar (Þorsteini) og lögfræðingsins Davíðs Arnar.
Drengirnir voru efins um miðjan dag í gær að það væri hægt að finna jafngóða foringja og þeir höfðu þá þegar til að leysa af, en í lok kvöldvökunnar kom einn drengurinn upp að gestaforingjunum og spurði hvort þeir myndu ekki koma aftur að ári og leysa af, það væri svo gaman að fá þá í heimsókn.
Framundan í dag er síðan dagur með endurnærðu starfsfólki sem fékk að njóta frábærs kvölds í gær hér í sveitinni og ástæða til að þakka Hótel Glym og Þórisstöðum fyrir að vera frábærir nágrannar.
Myndir úr 7. flokki
Það er metnaður okkar sem störfum í Vatnaskógi að gera gott starf enn betra. Ef þú hefur ábendingar, athugasemdir eða vilt hafa samband við okkur hér í Vatnaskógi getur þú sent tölvupóst á elli@vatnaskogur.net.
Með kveðju úr Skóginum,
Halldór Elías Guðmundsson