Fyrsti dagurinn gekk eins og í sögu hér í Vatnaskógi. Stúlkurnar tóku virkan þátt í dagskránni, boðið var upp á knattspyrnu, dagskrá í íþróttahúsi, útileiki, báta og listasmiðju svo fátt eitt sé nefnt. Boðið var upp á gönguferð þar sem staðurinn var kynntur og smíðaverkstæðið var opið mestan part dagsins.

Á kvöldvöku var boðið upp á leikrit með leikhópnum Villiöndinni, framhaldssagan um Najac var lesinn og stúlkurnar heyrðu söguna um Miskunnsama samverjann. Eftir fánahyllingu í morgun verður síðan morgunstund þar sem stúlkurnar ræða um uppbyggingu Biblíunnar og fá upplýsingar um dagskrána framundan.

Veðrið er fremur rakt þessa stundina í Vatnaskógi, ekki sést til sólar og skyggni mjög takmarkað nú í morgunsárið, en varla glittir í sumarbústaðina við norðanvert Eyrarvatn og Kambur er að fullu hulinn þoku niður að fjallsrótum. Það er þó næstum blankalogn og veðrið því tilvalið til bátsferða og langhlaupa, en eftir Biblíulestur verður meðal annars boðið upp á smíðaverkstæði, báta og 1500m hlaup.

Myndir úr 8. flokki

https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/sets/72157671362264505/

Það er metnaður okkar sem störfum í Vatnaskógi að gera gott starf enn betra. Ef þú hefur ábendingar, athugasemdir eða vilt hafa samband við okkur hér í Vatnaskógi getur þú sent tölvupóst á elli@vatnaskogur.net.

Með kveðju úr Skóginum,
Dagrún Linda og Halldór Elías (Elli)