Annar dagurinn í stúlknaflokki einkenndist af þokusúld og góðri dagskrá. Stúlkurnar notfærðu sér bátaflota Vatnaskógar og annar fiskur sumarsins kom á land. Þær tóku þátt í frjálsum íþróttum, 1500m hlaupi, hástökki og langstökki án atrennu, spiluðu brennó, mættu í listasmiðjuna og tóku þátt í leikjum.
Á morgunstund í gær var uppbygging Biblíunnar kynnt fyrir þeim og fjallað um mikilvægi þess að þekkja til mismunandi trúarbragða til að geta átt í jákvæðum og heilbrigðum samskiptum við þá sem ekki eru hluti af okkar trúar- og/eða menningarhefð. Þá æfðu þær sig að fletta upp ritningartextum úr Davíðssálmum en hér í Vatnaskógi leggjum við mikla áherslu á að þau börn sem hingað koma kynnist Biblíunni og kynnist því hvernig hægt er að finna og skoða einstaka kafla og setningar þessa mikilvæga rits.
Á kvöldvöku heyrðum við um kristniboð og söguna um Davíð og Golíat. Sáum leikritið Um grænsápuna og sungum saman.
Dagurinn í dag verður viðburðaríkur. Á meðal þess sem verður á dagskrá er hermannaleikur, hópleikir, 400 metra hlaup, smíðaverkstæði, skákkeppni, bátar og listasmiðja.
Mjög reglulega kemur upp umræða í Vatnaskógi um hvort hermannaleikurinn sé viðeigandi í kristilegum sumarbúðum og hvort hann ýti undir stríðshetjudýrkun. Hermannaleikurinn er í raun aðeins tveggja liða eltingarleikur, þar sem hvort lið um sig fær armband og klemmur á upphandlegg og stúlkurnar keppast um að kippa klemmunum hvor af annarri án þess að meiða andstæðinginn. Ef stúlkurnar missa klemmuna, geta þær haldið heim á bækistöð liðs síns, fengið nýja klemmu og haldið áfram leiknum. Það lið sem safnar fleiri klemmum sigrar.
Á starfsmannanámskeiði vorið 2001, var tími notaður í umræður um kosti og galla leiksins undir stjórn guðfræðimenntaðs fagaðila sem var gagnrýnin á orðanotkun og áherslur. Síðan þá hefur umræðan verið tekin upp reglulega. Í þessu samhengi er rétt að taka fram að hernaðartengt tungutak á sér langa hefð í sögu KFUM og KFUK á Íslandi meðal annars í sálmum eins og Áfram Kristsmenn Krossmenn og Sjáið merkið, Kristur kemur. Niðurstaða þessa samtals hefur skapað aukna meðvitund um ofangreint tungutak án þess að það hafi nauðsynlega orðið sjáanlegar breytingar gagnvart þátttakendum í starfinu.
Þegar kemur að tungutaki og hefðum hér í Vatnaskógi höfum við þurft að takast á við annað „vandamál“ í þessum flokki, en stór hluti söngvana í Vatnaskógi notast eingöngu við karlkyns persónufornöfn og orð eins og piltar og drengir koma iðulega fyrir í söngbókinni sem við notum. Í upphafi flokksins tók starfsmaður að sér að leiðrétta kynjahalla söngbókarinnar en það hefur reynst meira krefjandi en við gerðum ráð fyrir í upphafi, þó nokkuð hafi áunnist þessa fyrstu daga.
Þessir fyrstu dagar í fyrsta stúlknaflokknum hafa verið lærdómsríkir fyrir okkur hér í Vatnaskógi enda ýmislegt sem við höfum þurft að nálgast með öðrum hætti en við erum e.t.v. vön þó við leitumst eftir mætti að viðhalda hefðum og venjum hér í skóginum.
Myndir úr 8. flokki
https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/sets/72157671362264505/
Það er metnaður okkar sem störfum í Vatnaskógi að gera gott starf enn betra. Ef þú hefur ábendingar, athugasemdir eða vilt hafa samband við okkur hér í Vatnaskógi getur þú sent tölvupóst á elli@vatnaskogur.net.
Með kveðju úr Skóginum,
Dagrún Linda og Halldór Elías (Elli)