Hápunktur gærdagsins reyndist vera vatnafjörið eftir kaffi, en tveir góðir Skógarmenn komu á svæðið í dag með glæsilegt vatnatrampólín. Annar fiskur flokksins veiddist í gær og stelpurnar tóku þátt í frjálsum íþróttum, meðal annars kúluvarpi.

Meðal annarra verkefna má nefna mafíu og vinabandagerð, einhverjar stúlkur léku stutta leikþætti sem voru teknir upp og smíðaverkstæðið var opið.

Nú í morgun fengu stúlkurnar að sofa 30 mínútum lengur en venjulega og taka síðan þátt í Skógarmannaguðsþjónustu að loknum morgunverði. Hvern sunnudag taka þátttakendur í starfi Vatnaskógar þátt í guðsþjónustu sem að jafnaði er haldin í hátíðarsalnum okkar í Gamla skála. Áður fyrr var algengt að þátttakendur í flokkum gengu til guðsþjónustuhalds í Hallgrímskirkju á Saurbæ hér á Hvalfjarðarströnd en verulega hefur dregið úr því á seinni árum.

Skógarmannaguðsþjónustan í hátíðarsalnum verður með mjög hefðbundnu sniði og lögð áhersla á að kynna og útskýra helstu liði klassískrar guðsþjónustu.

Myndir úr 8. flokki

https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/sets/72157671362264505/

Það er metnaður okkar sem störfum í Vatnaskógi að gera gott starf enn betra. Ef þú hefur ábendingar, athugasemdir eða vilt hafa samband við okkur hér í Vatnaskógi getur þú sent tölvupóst á elli@vatnaskogur.net.

Með kveðju úr Skóginum,
Dagrún Linda og Halldór Elías (Elli)