Í dag er veisludagur í Vatnaskógi. Á veisludegi í dag verður boðið upp á víðavangshlaup, sem er 4,2 km hlaup í kringum Eyrarvatn, þar sem keppendur þurfa m.a. að vaða tvo mjög mismunandi árósa, annars vegar mjög grýttan árfarveg og hins vegar sandburð, þær þurfa að hlaupa fram hjá kríuvarpi og á leiðinni er mjög fjölbreytt undirlag sem hlaupið er á. Nú í morgunsárið er boðið upp á myndbandaverkefni og morgunleikfimi, auk þess sem lokaleikir í poolmótinu verða spilaðir.

Síðar í dag verður knattspyrnuleikur milli stúlknanna og foringja, smíðaverkstæði og bátar verða í boði og stúlkurnar verða hvattir til að fara í sturtu og snyrtilegri föt og loks hefst veislukvöld kl. 18:30. Boðið verður upp á dýrindismat, stúlkurnar taka við viðurkenningum fyrir árangur í þeim fjölda móta sem eru í gangi í hverri viku, Sjónvarp Lindarrjóður verður með útsendingu, lokakafli framhaldssögunnar um Najac verður lesin og stúlkurnar heyra síðustu Biblíusögu vikunnar.

Öðru hvoru nefna foreldrar við mig að þeir vildu óska þess að þau gætu komið upp í Vatnaskóg og kynnst staðnum sem hefur jafn stóran sess í hjarta barnanna þeirra og raun ber oft vitni. Mig langar af þeim sökum að benda á tvö frábær tækifæri sem Vatnaskógur býður upp á fyrir fjölskyldur. Annars vegar er vert að minnast á fjölskylduflokka sem eru nokkrum sinnum á ári í skóginum og hins vegar langar mig að benda sérstaklega á Sæludaga um Verslunarmannahelgina sem er vímuefnalaus hátíð hér í Vatnaskógi með fjölbreyttri dagskrá fyrir alla fjölskylduna og hefst næstkomandi fimmtudagseftirmiðdag og stendur fram á mánudag.

Myndir úr 8. flokki

https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/sets/72157671362264505/

Það er metnaður okkar sem störfum í Vatnaskógi að gera gott starf enn betra. Ef þú hefur ábendingar, athugasemdir eða vilt hafa samband við okkur hér í Vatnaskógi getur þú sent tölvupóst á elli@vatnaskogur.net.

Með kveðju úr Skóginum,
Dagrún Linda og Halldór Elías (Elli)