Í gær, miðvikudaginn 3. ágúst, var veður áfram með mestum ágætum, þó sólin léti sjá sig bara öðruhverju og stutt í senn. Sem fyrr var þétt dagskrá yfir daginn. Dagurinn var merkilegur líka fyrir þær sakir að þá voru 93 ár liðin frá fyrsta dvalarflokki í Vatnaskógi, sem hingað kom (keyrandi, siglandi og gangandi) 3. ágúst 1923. Það var því viðeigandi að bjóða uppá hið víðfræga víðavangshlaup, kringum Eyravatn, í gær. Sá sögulegi árangur náðist að einn þátttakenda, Þorvaldur Ingi, sló Skógarmet, sem staðið hafði í 34 ár, eða frá því árið 1982, með því að hlaupa þennan ríflega 4 km. hring á 15 mín. og 21 sek. Inní því felst að þvera báða ósa vatnsins ásamt öðrum utanvegaslóðum. Í gær hófst einnig formlega Svínadalsdeildin í fótbolta, en í henni eru 4 blönduð lið. Bátarnir hafa verið vinsælir, ásamt því að ótrúlega vinsælt virðist vera að dífa sér aðeins í vatnið, þó kalt sé, og hoppa aðeins á vatnstrampólíninu, eða ekki. Eftir kvöldvöku var svo boði upp á kvöldagskrá sem fólst í því að blanda saman tveimur skemmtilegum leikjum, flóttamanna- og hermannaleik, sem endaði með “uppgjöri” í Oddakoti. Þrátt fyrir þessa útiveru og ærsl, náðist ágæt ró ekki svo löngu eftir miðnætti. Veðrið í dag virðist jafnvel betra en í gær og okkar bíður dagur fullur af dagskrá. Nokkrar myndir má sjá hér.

Kv. Gunnar Þór og Guðm. Karl.