Í gær hélt stuðið áfram hjá okkur, margir skelltu sér á vatnið og voru fyrstu fiskar flokksins veiddir. Það eru greinilega margir góðir veiðimenn á svæðinu og hafa þeir sterkar skoðanir á hvernig best sé að ná árangri við veiðar, hvar best sé að vera á vatninu, hvaða spúna skal nota og hvaða beita henti aðstæðum í Vatnaskógi. Vinsælasta beitan er án efa gulu baunirnar.

IMG_3624

Listasmiðjan var á sínum stað og meðal verkefna dagsins var grímugerð og mátti sjá drengina ganga um svæðið með allskyns grímur, sumar hverjar frekar hrikalegar. Þá var boðið upp á ævintýragöngu um skóginn þar sem bláber voru meðal annars smökkuð.


IMG_3629

Vegna þess hversu veðri var gott hjá okkur þá var ákveðið að halda kvöldvökuna úti í skógi undir berum himni. Þar fengu drengirnir deig og pulsur á prik og síðan voru herlegheitin grilluð á varðeldinum. Nokkrir drengjanna höfðu æft upp leikrit sem frumflutt var á kvöldvökunni, orðið í skóginum var að um ákveðinn leiksigur hafi verið að ræða. Erfitt var fyrir starfsmenn að flytja sitt leikrit í kjölfarið en gerðu þau sitt allra besta og uppskáru fagnaðarlæti drengjanna að leikriti loknu.

IMG_3645

Kveðja úr Vatnaskógi,

Ásgeir Pétursson