Það var góður hópur drengja sem mætti í Vatnaskóg í gær. Það var greinilegt frá upphafi að á ferðinni var fjörugur hópur og margir snillingar inn á milli.

Strákarnir byrjuðu á að setjast við borðið sitt og kynnast borðfélögunum, því næst var haldið út í svefnskála þar sem allir komu sér fyrir. Að hádegisverði loknum var boðið upp á skoðunarferð um svæðið, enda margir staðir og hús sem er vissara að þekkja.

Í gær var frábært veður hjá okkur í skóginum, glampandi sól og logn! Þessi veðurskilyrði eru hins vegar fullkomin fyrir flugurnar, sem heimsóttu okkur í milljónatali, mörgum til ama.

Flestir skelltu sér á bátana fyrsta daginn og sumir hafa nánast verið á þeim síðan. Einnig var vinsælt að vaða í kringum bryggjuna.

Listasmiðjan var á sínum stað og naut gríðarlegra vinsælda eins og oft í þessum flokkum. Verkefni dagsins voru meðal annars svokallaðir „stressboltar“, þar sem blöðrur eru fylltar með hveiti.

Í dag virðist veðurblíðan ætla að halda áfram hjá okkur og á þessari stundu eru margir drengjanna mættir út á bát, í listasmiðjuna eða í íþróttahúsið.

 

Með kveðju úr skóginum

Ásgeir Pétursson, forstöðumaður