Stuðið heldur áfram hjá okkur í Vatnaskógi og sváfu flestir vel í nótt, enda dauðþreyttir eftir gærdaginn. Í morgun var boðið upp á brauð og heitt súkkulaði að hætti hússins. Núna eru allir drengirnir orðnir Skógarmenn, en þann heiður hljóta þeir sem hafa gist í Vatnaskógi í tvær nætur. Við bjóðum nýjustu meðlimunum hjartanlega velkomna í hópinn.

Það er farið að blása á okkur hérna í skóginum en það stoppar okkur ekki í að bjóða upp á fjölbreytta dagskrá. Núna fyrir hádegi verður kraftakeppnin Vatnaskógarvíkingurinn haldin, meðal greina verður„dauðaganga“ og kassabíladráttur.

Margir héldu áfram siglingum á vatninu í gær og ný verkefni biðu í listasmiðjunni. Að þessu sinni var meðal annars boðið upp á grímugerð og margir fengu nýja greiðslu meðan beðið var eftir að grímurnar þornuðu.

Þá voru fyrstu fiskar sumarsins veiddir í gær, það er búið að mæla þá þá út og spurning hvort þeir slái einhver met.

Að lokum kynnum við nýjung í Vatnaskógi, nú hefur verið fjárfest í málmleitartækjum sem nema málm í jörðu. Flestir strákarnir hafa nú þegar sótt þar til gert námskeið á tækin og mun fjársjóðsleitin líklega hefjast fyrir alvöru í dag. Starfsmaður prófaði tækið og upp úr krafsinu komu ýmsar gersemar, svo sem gamlir aurar, ryðgaður 100 kall, naglar og rörbútar. Það verður spennandi að sjá hvað strákarnir finna.

 

Kveðja úr skóginum

Ásgeir Pétursson, forstöðumaður