Þá er komið að síðasta heila deginum okkar í Gauraflokki. Strákarnir munu hafa nóg fyrir stafni í dag og verður síðan boðið upp á veislumat í kvöld og síðan sérstaka veislukvöldvöku, sem verður með veglegri hættinum.

Það er að draga úr vindinum hjá okkur og vonandi náum við að hafa bátana opna í dag. Einnig höfum við fengið kajak-kennara til að koma og vera með námskeið fyrir drengina.

Vatnaskógarvíkingurinn fór fram í gær þar sem mátti sjá mikil tilþrif, enda mikill kraftur í drengjunum. Þá var boðið upp á gönguferð þar sem leyndardómar skógarins voru kannaðir. Meðal þess sem mátti sjá voru skógarhús, klifurklettar og baðströnd.

 

Á kvöldvökunni í gær var hin árlega hæfileikasýning Gauraflokks haldin við mikinn fögnuð viðstaddra. Þar fengum við að sjá nokkur dansatriði, einn listgjörning og heyrðum gátu. Greinilega miklir hæfileikar í gangi.

Hérna er hægt að finna myndir úr flokknum: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157684786329296

 

Það hefur verið gaman að kynnast strákunum og margir litlir sigrar hafa átt sér stað. Sumir hafa bætt sig í samskiptum og eignast nýja vini. Margir drengjanna eru að gista að heiman í fyrsta skipti og eiga þeir hrós skilið fyrir að koma í Vatnaskóg. Það er okkar von að allir komi með góðar minningar heim og vonumst við til þess að sjá þá sem hafa aldur til aftur á næsta ári.

Við minnum á að rútan kemur um kl. 14 á Holtaveg 28 á morgun, þriðjudaginn 13. júní.

 

Kær kveðja

Ásgeir Pétursson, forstöðumaður