Ævintýraflokkur í Vatnaskógi hófst með krafti í gær. Samhristingur, hungurleikar, kúluvarp, knattspyrna, bátar og 60m hlaup voru meðal dagskrárliða.
Það skiptust á skin og skúrir, en drengirnir létu það ekki á sig fá, enda enginn verri þó hann vökni ögn eins og segir í einum Vatnaskógarsöngnum. Drengirnir fengu kjötbollur í hádegismat, sætabrauð í kaffitíma. Þykk sveppasúpa með brauði var síðan á boðstólnum um kvöldið. Eftir kvöldvöku var boðið upp á ávexti og pólókex.
Á kvöldvökunni var boðið upp á kynningu á þeim fjölmörgu keppnum sem fara fram í Vatnaskógi. Drengirnir heyrðu örlítið um Sr. Friðrik Friðriksson, bænasvör og mikilvægi þess að trúa á von og nýtt upphaf. Þá sýndi leikfélagið Villiöndin leikritið um Sigga Skoda. Drengjunum gekk misvel að sofna í gærkvöldi, en það var komin algjör ró rétt upp úr miðnætti.
Oft nota ég hluta færslunnar eftir fyrsta daginn til að útskýra hvernig ég notast ásamt starfsfólkinu við kenningar um sorgarferli og viðbrögð til að takast á við heimþrá. Að þessu sinni læt ég það þó bíða, enda eru drengirnir í flokknum í eldri kantinum og lítið hefur borið á heimþrá fram til þessa.
Drengirnir hafa verið fjörugir þennan fyrsta sólarhring og á stundum eins og kýr að vori. Á leiðinni í rútunni upp í Vatnaskóg spurðu nokkrir hvers vegna símanotkun væri ekki leyfð, þeir gætu ekkert gert án símans síns, en ég á von á því að þær spurningar þagni alveg í dag, enda frelsið og krafturinn sem felst í útiverunni, leikjunum, bátunum og íþróttunum engu líkt.
Morgunstundin fjallað um Biblíuna og hvernig mismunandi nálgun trúarhópa að uppruna helgirita hefur áhrif á túlkun annars vegar og skilning á hlutverki þeirra og merkingu hins vegar. Því væri mikilvægt að þekkja samhengi og uppruna Biblíunnar til að skilja merkingu hennar fyrir okkur.
Framundan í dag er m.a. vatnafjör með vatnatrampólíni, tuðrudrætti og tilheyrandi stemmningu ef veðrið helst skaplegt.
Myndir úr flokknum eru á slóðinni https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157682718834224.
Með kveðju,
Halldór „Elli“ Guðmundsson
E.s. Hægt er að senda mér fyrirspurnir á netfangið elli@vatnaskogur.net.