Gærdagurinn gekk upp og ofan hjá okkur hérna í Vatnaskógi. Eftir hádegi ákváðum við að hefja vatnafjör með vatnatrampólíni og tuðrudrætti, en því miður lét sólin ekki sjá sig og drengirnir urðu fljótt kaldir og dasaðir við að ærslast í vatninu og eftir rúma klukkustund voru margir komnir í skjól undir sæng eftir að hafa bleytt sig ærlega. Rétt í þann mund sem sólin lét síðan sjá sig, um kaffileitið, slitnaði festing á tuðrunni, þannig að við ákváðum að slá frekari vatnastemmningu á frest og skipta um gír eftir síðdegishressinguna.

Drengirnir voru því drifnir í hin sívinsæla hermannaleik* sem hefur verið í boði einu sinni í hverjum flokki hér í skóginum í marga áratugi.

Þegar leið á daginn og rigningin lét sig hverfa mætti lúsmýið til leiks. Drengir og foringjar eru sumir hverjir útbitnir eftir þetta síðdegi og kvartanir um bit og kláða hafa verið fjölmargar. Það eru fá fyrirbyggjandi ráð til að takast á við lúsmýið, helst það að vera í síðermapeysum og síðum buxum, sem verndar þó ekki handarbök, eyru og andlit.

Til að bregðast við bitum og róa óþægilegan kláða notum við aloe vera krem, Afterbite stift, ásamt ofnæmislyfjunum Histasín/Lóritín og sterakremi eins og Mildison. Vinsamlegast láta vita ef börnin mega ekki taka þessi lyf. Kláðinn virðist oftast líða hjá eftir nokkra daga og bitin gróa. Ef drengirnir verða enn þá illa haldnir af bitum við heimkomu mælum við með því að leitað sé ráða læknis.

Þrátt fyrir að ofangreindar fréttir gærdagsins hljómi e.t.v. ekki sérlega spennandi, þá skemmtu drengirnir sér mjög vel. Hermannaleikurinn sló í gegn, vatnið er sívinsælt og nærri 20 drengir hlupu 4,2 km víðavangshlaup í kringum Eyrarvatn. Knattspyrnumótið var í fullum gangi, auk þess sem boðið var upp á borðtennis, þythokkí, frábæra kvöldvöku og hópleiki.

Allar myndir úr flokknum má finna á slóðinni https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157682718834224.

Það er metnaður okkar sem störfum í Vatnaskógi að gera gott starf enn betra. Ef þú hefur ábendingar, athugasemdir eða vilt hafa samband við okkur hér í Vatnaskógi getur þú sent tölvupóst á elli@vatnaskogur.net.

Kveðja,
Halldór Elías Guðmundsson

*Upplýsingar um hermannaleikinn

Aftur að hermannaleiknum hér í Vatnaskógi. Það er mikilvægt að taka fram að hér í Vatnaskógi hefur verið misvirk umræða í yfir 16 ár milli starfsfólks um hvort leikurinn sé viðeigandi í kristilegum sumarbúðum, m.a. vegna nafnsins og þeirrar spurningar hvort hann ýti undir stríðshetjudýrkun. Þannig var hluti starfsmannanámskeiðs vorið 2001, notaðar í umræður um kosti og galla leiksins undir stjórn guðfræðimenntaðs fagaðila sem var gagnrýnin á orðanotkun og áherslur. Síðan þá hefur umræðan verið tekin upp reglulega. Í þessu samhengi er rétt að taka fram að hernaðartengt tungutak á sér langa hefð í sögu KFUM og KFUK á Íslandi meðal annars í sálmum eins og Áfram Kristsmenn Krossmenn og Sjáið merkið, Kristur kemur. Þrátt fyrir að ég hafi verið fagaðilinn sem stýrði umræðunum fyrir nær 15 árum þá er leikurinn enn hluti af dagskránni hjá okkur og óhætt að segja að hann kalli alltaf fram mikla stemmningu, gleði og spennu.

Hermannaleikurinn er í raun aðeins tveggja liða eltingarleikur, þar sem hvort lið um sig fær armband og klemmur á upphandlegg og drengirnir keppast um að kippa klemmunum hvor af öðrum án þess að meiða andstæðinginn. Ef drengirnir missa klemmuna, geta þeir haldið heim á bækistöð liðs síns, fengið nýja klemmu og haldið áfram leiknum. Það lið sem safnar fleiri klemmum sigrar.

Meðvitund starfsmanna um gagnrýni á leikinn og þátttaka í umræðum um kosti og galla þess að bjóða upp á þennan dagskrárlið er dæmi um spennandi og gróskumikla umræðu meðal starfsmanna sem leitast stöðugt við að bæta starfið í sumarbúðunum. Einhverjum kann að finnast að rétt niðurstaða skipti meira máli en hvernig staðið er að umræðunni, það er hins vegar mín trú að vönduð lýðræðisleg umræða sé að öðru jöfnu grundvallarforsenda þess að starfið í Skóginum þróist á sem vandaðastan veg.