Gærdagurinn var um margt hefðbundinn hér í Vatnaskógi, boðið var upp á hástökk og langstökk án atrennu, innanhúsknattspyrnumót hófst, bátarnir voru opnir, boðið var upp á fjársjóðsleit og nokkrir drengir fengu að skanna svæðið með málmleitartækjum svo fátt eitt sé nefnt.

Málmleitartækin eru nýjung í starfi sumarbúða KFUM og KFUK, en síðasta sumar kom góður vinur starfsins og fyrrum foringi með eitt slíkt tæki í skóginn og leyfði drengjunum að prófa. Tækið sló í gegn hjá drengjunum (og sumu starfsfólki) og fyrrnefndur vinur tók þá ákvörðun að standa að söfnun fyrir málmleitartækjum meðal vina í hópi fyrrum foringja. Í kjölfarið keypti hópurinn nokkur tæki til að hafa í Vatnaskógi og auk þess hvers kyns gamla mynt, málmglingur, hringi og hálsmen sem hefur verið dreift um skóginn. Vatnaskógarsvæðið er því orðið algjört gósenland málmleitardellukalla. Ég bið foreldra fyrirfram velvirðingar á því ef drengirnir þeirra byrja að suða um að þeir þurfi að fá svona tæki í afmælisgjöf.

Ein af stærstu óviðráðanlegu breytunum í Vatnaskógi er veðrið. Þrátt fyrir að á svæðinu séu frábær tækifæri fyrir innidagskrá og alltaf sé hægt að klæða af sér rigningu þá þarf því miður stundum að draga úr tilboðum vegna veðurs. Það á meðal annars við um útileguna í þessum flokki, en í gærkvöldi þurftum við að taka ákvörðun um að sleppa útilegu í þessum flokki, enda mjög blautt yfir í skóginum og Veður.is hafði staðsetti rigningarský beint yfir skóginum alla liðna nótt.

Dagurinn í dag verður rangsælisdagur, hugmynd sem á sér langa sögu í Vindáshlíð og Ölveri, en hefur ekki fest sterkar rætur í Vatnaskógi. Allri dagskrá í dag er snúið á hvolf, drengjunum var boðin góð nótt þegar þeir voru vaktir í morgun, í stað morgunmatar buðum við upp á kvöldkaffi og að því loknu héldum við á kvöldvöku. Þannig heldur dagskráin síðan áfram í dag og líkur formlega með morgunmat um kl. 22:00. Fleiri fréttir af rangsælisdagnum koma á morgun.

Allar myndir úr flokknum má finna á slóðinni https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157682718834224.

Það er óhætt að segja að engir tveir flokkar í Vatnaskógi séu eins og þar sem flokkarnir sem ég hef starfað í eru a.m.k. á annað hundrað þá þykist ég vita það. Breyturnar eru fjölmargar, s.s. veður, 100 einstakir drengir, 20 starfsmenn með fjölbreyttan bakgrunn, menntun og reynslu að ógleymdu samspili allra þessara þátta.

Á hverjum degi gefur starfsfólkið sér tíma til að fara yfir helstu atburði dagsins til að læra af þeim og gera betur og ég sem forstöðumaður leitast við í samtali við eldri starfsmenn að meta hvort til staðar séu breytingar í starfinu og væntingum drengja yfir lengri tíma (trend). Það er nefnilega metnaður okkar sem störfum í Vatnaskógi að gera gott starf enn betra. Ef þú hefur ábendingar, athugasemdir eða vilt hafa samband við okkur hér í Vatnaskógi getur þú sent tölvupóst á elli@vatnaskogur.net.