Í kvöld var veislukvöldverður og hátíðarkvöldvaka í Vatnaskógi, þar sem farið var yfir helstu afrekin hér í 4. flokki. Fyrr um daginn fór helmingur drengjanna í fjallgöngu upp á Kamb, sem er fjallstindurinn hér norðan við Eyrarvatn og aðrir kepptu í Amazing Race Vatnaskógar. Þá var boðið upp á margvíslega aðra dagskrá, heitu pottarnir voru opnir, keppt var í kringlukasti og brekkuhlaupi, leynifélagið var á sínum og drengirnir tóku þátt í Skógarmannaguðsþjónustu stað svo fátt eitt sé nefnt. Veðrið var yndislegt í dag, bjart og rigningarlaust.

Framundan á morgun er síðan dagur uppfullur af nýjum ævintýrum, stefnt er að uppsetningu þrautabrautar, knattspyrnuleikur milli Stjörnuliðs og Pressunnar ásamt leik foringja og drengja verða í fyrramálið, í hádeginu verður boðið upp á pizzu og eftir hádegismat verður síðan ævintýraleikur sem ber heitið „Flóttinn úr Vatnaskógi“.

Rútan fer síðan úr Vatnaskógi rétt um kl. 16:00 og er væntanleg við KFUM og KFUK húsið við Holtaveg í Reykjavík kl. 17:00.

Allar myndir úr flokknum má finna á slóðinni https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157682718834224.

Þetta er síðasta færslan frá 4. flokki 2017. Við sem störfum í Vatnaskógi erum þakklát fyrir það traust sem foreldrar sína okkur með því að senda börn sín í sumarbúðir og tökum það traust alvarlega. Það er metnaður okkar sem störfum í Vatnaskógi að gera gott starf enn betra.

Við vitum að á stundum fara atburðir og uppákomur milli drengjanna fram hjá okkur, enda svæðið stórt og margt í gangi á sama tíma. Við erum þakklát fyrir allar ábendingar um það sem vel er gert og ekki síður það sem betur má fara. Ef þú hefur ábendingar, athugasemdir eða vilt hafa samband við okkur hér í Vatnaskógi getur þú sent tölvupóst á elli@vatnaskogur.net. Einnig er hægt að hafa samband við skrifstofu KFUM og KFUK á Íslandi í síma 588 8899 eða skrifstofa@kfum.is.

Með kveðju,
Halldór Elías Guðmundsson forstöðumaður

E.s. Myndin sem fylgir fréttinni er af 6. borði í 4. flokki, en þeir unnu Hegðunarkeppni flokksins með miklum glæsibrag.

Þegar drengir takast á – Innlegg

Það er ekki alltaf átakalaust að búa með 100 öðrum drengjum í sumarbúðum í heila viku og öðru hvoru koma upp árekstrar og atburðir sem allir sem að koma myndu helst óska að hefðu ekki gerst. Hér í Vatnaskógi leitumst við eftir að hjálpa drengjunum að takast á við árekstra og læra að leita leiða til sátta og fyrirgefningar þegar það er hægt um leið og við leitumst við virða vilja, rétt og vald þeirra sem eru þolendur til að taka eigin ákvarðanir um úrlausn. Þannig reynum við eftir mætti að kenna drengjunum að kljást á þroskaðan og uppbyggjandi hátt við árekstra og núning, um leið og við vonandi kynnum fyrir þeim mikilvæg hugtök og aðferðir. Í þeim örfáu tilfellum á ári sem núningur verður alvarlegur leitumst við síðan að sjálfsögðu eftir góðum samskiptum við foreldra til að finna bestu lausnir fyrir alla sem koma að málum.