Á morgun er síðasti dagur 5. flokks þetta árið. Drengirnir verða vaktir 30 mínútum seinna en venjulega, eða kl. 9:00. Morgunmatur hefst kl. 9:30 og að honum loknum er fánahylling og Skógarmannaguðsþjónusta.
Eftir guðsþjónustuna tekur við frjáls tími fram að hádegismat kl. 12:00, drengirnir pakka og ganga frá farangrinum sínum eftir matinn og kl. 13:30 hefst útileikjadagskrá með hinum vinsælu hungurleikum og öðrum spennandi hópleikjum. Drengirnir fá kaffihressingu kl. 15:00 og í kjölfarið auglýsir starfsfólkið óskilaföt sem hafa fundist á víð og dreif um Vatnaskóg þessa viku.
Rúturnar leggja af stað til Reykjavíkur um kl. 15:55 og foreldrar sem hyggjast sækja börnin sín þurfa að vera komin á svæðið í síðasta lagi kl. 15:45. Ef drengirnir verða sóttir er mikilvægt að við vitum það í tíma svo drengirnir geti sett farangurinn sinn til hliðar og hann fari ekki í rútuna.
Allar myndir úr flokknum má finna á slóðinni https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157683478994161
Þetta er síðasta færslan frá 5. flokki 2017. Við sem störfum í Vatnaskógi erum þakklát fyrir það traust sem foreldrar sína okkur með því að senda börn sín í sumarbúðir og tökum það traust alvarlega. Það er metnaður okkar sem störfum í Vatnaskógi að gera gott starf enn betra.
Ef þú hefur ábendingar, athugasemdir eða vilt hafa samband við okkur hér í Vatnaskógi getur þú sent tölvupóst á elli@vatnaskogur.net.