Dagskráin í gær gekk vel. Sólin lét sjá sig þegar leið á daginn og hluti drengjanna nýtti tækifærið til að vaða í vatninu og hoppa á vatnatrampólíninu. Eftir kvöldmat fór hluti hópsins síðan í skógargöngu og klettaklifur sem sló í gegn hjá þátttakendum, meðan aðrir voru í íþróttum, unnu í smíðaverkstæðinu, fóru á báta eða gripu í spil.

Framundan í dag er fjölbreyttur dagur. Rétt í þessu er að hefjast brekkuhlaup, sem er 2 km hlaup upp eftir veginum í Vatnaskóg. Þá er einnig boðið upp á brandarastund, stangatennismót og úrslitaleikinn í Skeljungsbikarnum í knattspyrnu. Hluti drengjanna mun etja kappi við lið foringja í knattspyrnu eftir kaffihressingu og þá verður opnað fyrir heita potta síðar í dag. Kvöldið hefst síðan á veislukvöldverði kl. 18:30 sem verður fylgt eftir með hátíðarkvöldvöku, með fjölbreyttri dagskrá, m.a. Biblíuspurningakeppni, lokum framhaldssögunnar, verðlaunaafhendingu, leikritum, Sjónvarpi Lindarrjóður og Biblíusögu. Það er óhætt að lofa mikilli gleði og spennu í kvöld.

Allar myndir úr flokknum má finna á slóðinni https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157683478994161

Það er metnaður okkar sem störfum í Vatnaskógi að gera gott starf enn betra. Ef þú hefur ábendingar, athugasemdir eða vilt hafa samband við okkur hér í Vatnaskógi getur þú sent tölvupóst á elli@vatnaskogur.net.


Til upplýsingar – Um kristilegar sumarbúðir

Starf KFUM og KFUK leitast við að byggja þáttakendur upp félagslega, líkamlega og andlega. Þátttaka í íþróttum ásamt samveru og leikjum eru þannig grundvallandi þættir í starfinu ásamt trúarlegri fræðslu sem stuðlar að andlegri uppbyggingu. Það er skilningur okkar í starfi KFUM og KFUK að samspil félagslegs, líkamlegs og andlegs þroska byggi upp heilsteyptar manneskjur.

Sumarbúðirnar hér í Vatnaskógi eru hluti af starfi KFUM og KFUK á Íslandi sem skilgreinir sig sem frjáls félagasamtök sem standa á sama trúarlega grunni og evangelísk-lútherska þjóðkirkjan á Íslandi. Trúarlegi þáttur starfsins í Vatnaskógi er þannig hluti af skírnarfræðslu kirkjunnar og leitast við að styðja foreldra í trúarlegri mótun barna sinna.

Á síðustu árum hefur þetta hlutverk þróast nokkuð með breyttum áherslum í kristnifræðum í skólum, minnkandi þátttöku í sunnudagaskólastarfi kirkjunnar og aukinni fjölmenningu á Íslandi. Þannig getur starfsfólk í sumarbúðunum ekki lengur gert ráð fyrir að börn hafi heyrt ákveðnar Biblíusögur eða lært um persónur í Biblíunni, þekki til lykilhugtaka í trúarhefðum á Íslandi eða að börn hafi jákvæða mynd af hlutverki trúarbragða.

Trúarlegt inntak starfsins hefur leitast við að taka tillit til og virða þessar breytingar. Segja má að trúarlegi þátturinn í starfi Vatnaskógar sé þríþættur og hægt að skipta honum upp í eftirfarandi þætti.

Fyrst má nefna hefðir sem eiga sér langa sögu í Vatnaskógi, sem miða að því að kynna og/eða styrkja ákveðið trúarlegt atferli. Þannig hefst hver dagur með signingu og morgunbæninni „Nú er ég klæddur og kominn á ról“ eftir Séra Hallgrím Pétursson. Fyrir hádegisverð og kvöldverð er sungið borðversið „Þar sem Drottinn ber á borð“ eftir Stein Sigurðsson. Í sumum flokkum fara drengirnir saman með Postulegu Trúarjátninguna á morgunstundum og/eða lesa í gegnum Boðorðin 10. Hluti söngvanna sem sungin er á kvöldvökum hefur trúarlegt inntak og flestir foringjar fara með bænavers með drengjunum fyrir svefninn. Ef flokkur er á sunnudögum er svokölluð Skógarmannaguðsþjónusta í stað morgunstundar, þar sem liðir hefðbundinnar kristinnar guðsþjónustu eru útskýrðir á einföldu máli.

Í annan stað er fræðsla um eðli og inntak Biblíunnar. Sú fræðsla fer að jafnaði fram með 5-10 mínútna innleggi á morgunstund. Síðan fara drengirnir með sínum foringja og er kennt að fletta upp Biblíutextum eftir köflum og versum, þar sem þeim gefst tækifæri til að ræða saman og spyrja spurninga í u.þ.b. 10-15 mínútur. Markmiðið er að gera texta Biblíunnar aðgengilegan drengjunum og stuðla þannig m.a. að menningarlæsi. Í því samhengi er rétt að benda á að rúmur helmingur mannkyns styðst við sögur Gamla Testamentisins í sinni trúarhefð og um fjórðungur mannkyns jafnframt við Nýja Testamentið. Því er að okkar mati gífurlega mikilvægt fyrir drengina að hafa tæki og tól til að skilja og þekkja trúarlega texta óháð trúarafstöðu og viðhorfa til tilvistar Guðs.

Þriðji þáttur fræðslunnar lítur að trúarlegri afstöðu. Trúarleg afstaða í þessari merkingu snýr m.a. að afstöðu til þess hvort að Guð sé til og/eða að lífsviðhorfum sem móta atferli okkar. Á kvöldvökum er flutt 5-7 mínútna kvöldhugleiðing, þar sem einn starfsmaður deilir með drengjunum einni Biblíusögu, útskýrir merkingu hennar og segir drengjunum af hverju sagan skipti viðkomandi starfsmann máli. Í lok dags, að lokinni kvöldvöku, er auk þess þeim drengjum sem vilja boðið að taka þátt í 10-15 mínútna bænastund í kapellunni í Vatnaskógi fyrir svefninn.

Þessi skipting fræðslunnar í hefðir/trúarlegt atferli, fræðslu og trúarlega afstöðu er ekki alltaf alveg klippt og skorin. Þannig er almenn fræðsla um einstakar sögur stór þáttur kvöldhugleiðingarinnar og umfjöllun um og þátttaka í trúarlegu atferli getur um leið verið til styrkingar trúarlegri afstöðu.

Starfsfólk sumarbúðanna hefur allflest skýra kristna sjálfsmynd sem mótar lífsafstöðu þeirra. Trúarafstaða starfsfólksins er oft það sem dregur það til starfa í sumarbúðunum og þátttaka í trúarlegri uppbyggingu er hluti af daglegri rútínu starfsfólks.

Ef foreldrar hafa áhuga á að fá frekari upplýsingar um trúarlega fræðslu sem fer fram í Vatnaskógi er sjálfsagt að hafa samband við skrifstofu KFUM og KFUK í Reykjavík eða senda tölvupóst á mig, elli@vatnaskogur.net.