Þá er komið að kvöldi annars dags í 7. flokki. Hér eru hressir og sprækir strákar á ferð, margir húmoristar og taka virkan þátt. Veðrið hefur því miður ekki verið uppá sitt besta. „Sjófarendur“ hafa mátt sætta sig við að vera ofurliði bornir af vindinum og rekið upp í fjöru eða verið sóttir af bátaforingja. Allir að sjálfsögðu heilir heim enda fyllsta öryggis gætt. Margir hafa þó haft gaman af því að bleyta sig við bryggjuna, hoppa útí og skemmta sér. Smíðastofan virkar vel og hinir margvíslegu smíðagripir orðið til. Íþróttahúsið stendur alltaf fyrir sínu með borðtennis, billiard, þythokký, bókasafni, spilum, íþróttasalnum og heitu pottunum. Sunnudagsmorguninn hófst á stuttri skógarmannamessu skv. venju. Þar var sungið og lesið úr Guðs orði. Kvöldvökurnar eru lifandi og skemmtilegar með kraftmiklum söng, leikriti, framhaldssögu og hugvekju. Kær kveðja, Sigurður Grétar Sigurðsson, forstöðumaður