Það er óhætt að segja að stemmingin sé góð í Vatnaskógi þrátt fyrir hryssingslegt veður.  Tíminn líður hratt.  Bátar hafa verið opnir eitthvað á hverjum degi, smíðastofan vinsæl, fótboltamótið í hámarki og frjálsar íþróttir á sínum stað.  Í gær var boðið uppá sundlaugaferð að Hlöðum sem er hér ca. 5 km. frá.  Þar var mikið buslað og glímt og höfðu menn gaman af.  Drjúgur hluti hópsins nýtti sér þetta tilboð.  Þeir og aðrir hafa líka gaman af að busla aðeins í vatninu við bryggjuna þegar það er í boði og ekki verra að ylja sér í heitu pottunum á staðnum.  Drengirnir taka vasklega undir söng, spyrja gáfulegra spurninga um kristna trú og koma oft með gáfuleg svör við hinum ýmsu spurningum sem ræddar eru.  Á morgunstund í morgun ræddum við meðal annars um boðorðin 10.  Ef einhverjrir foreldrar eða ömmur og afar eru lögfræðingar þá skuluð þið búa ykkur undir að drengirnir spyrji ykkur út í boðorðin og tengsl þeirra við lagasafn Íslands s.s. hegningarlög.  Það er merkilegt að þessi 3500 ára gamli texti úr Gamla testamentinu standist svona vel tímans tönn þar sem fjallað er m.a. um eignarétt, virðingu fyrir hjónabandi/sambandi, virðingu fyrir foreldrum, sannsögli og fleiri gildi sem eru ætíð svo mikilvæg í lífinu.  Á móti kemur að því miður virðist kristindómsfræðslu í skólum hafa hrakað mikið á síðustu árum og verðum við ítrekað vör við það hve fleiri og fleiri börn og unglingar þekkja lítið til biblíusagnanna.  Fjölmargar biblíusögur hafa að geyma þvílíkar perlur að það er menningarlegt slys þegar börn og ungmenni fara á mis við þær, óháð trúarafstöðu.  Kær kveðja, Sigurður Grétar Sigurðsson, forstöðumaður

https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157683188578342