Að venju var dagskráin í Vatnaskógi fjölbreytt í gær. Listakeppni, smíðaverkstæðið og bátarnir voru á sínum stað. Keppt var í langstökki, kúluvarpi og 400m hlaupi. Knattspyrnumót milli borða hélt áfram og drengjunum bauðst að horfa á leik Íslands og Sviss á EM í knattspyrnu.
Í hádeginu í gær var boðið upp á dýrindis kjúkling í karrí sem drengirnir borðuðu af bestu lyst og um kvöldið var síðan pylsupartý sem var mjög vinsælt líkt og búast mátti við. Eftir pylsurnar var síðan blásið til Hungurleika fyrir þá sem vildu, en hungurleikarnir í Vatnaskógi njóta mikilla vinsælda, en um er að ræða spennandi eltingaleik þar sem drengirnir keppa sín á milli á síminnkandi svæði um að klukka hvorn annan.
Kvöldinu í gær lauk síðan á kvöldvöku þar sem sagan um Sinbað sæfara hélt áfram, sagan um synina tvo úr Biblíunni var sögð og Villiöndin tók sígilda sumarbúðaleikritið Hermaður 17, en það hefur verið flutt í a.m.k. 40 ár í flokkum í Vatnaskógi og þykir enn jafnfyndið og þegar það var fyrst flutt.
Í dag fengu drengirnir að sofa 30 mínútum lengur en vanalega og voru vaktir kl. 9:00. Að loknum morgunmat var haldið í Skógarmannaguðsþjónustu sem styðst við hefðbundið guðsþjónustuform þjóðkirkjunnar með útskýringum um einstaka liði til að kenna drengjunum um messuformið og hvernig allar guðsþjónustur byggja á sterkum hefðum og venjum sem hafa merkingu og tilgang.
Hægt er að sjá ljósmyndir frá 8. flokki á slóðinni: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157683821629314
Ef þú þarft að hafa samband við okkur í Vatnaskógi, er hægt að senda tölvupóst á netfangið elli@vatnaskogur.net.