Í gær var dagskráin að venju fjölbreytt hér í Vatnaskógi. Boðið var að venju upp á margvíslegar keppnir og leiki, morgunstund og kvöldvaka voru á sínum stað, bikarkeppnin í knattspyrnu hófst eftir kaffi, en fyrir kaffi var boðið upp á hin sívinsæla hermannaleik. Boðið var upp á steiktan fisk í hádeginu og pylsupastarétt í kvöldmat.

Í tengslum við hermannaleikinn sem er nefndur hér að ofan er mikilvægt að taka fram að hér í Vatnaskógi hefur verið misvirk umræða í nærri 20 ár milli starfsfólks um hvort leikurinn sé viðeigandi í kristilegum sumarbúðum, m.a. vegna nafnsins og spurninga um hvort hann ýti undir stríðshetjudýrkun. Þannig var hluti starfsmannanámskeiðs strax vorið 2001, notaðar í umræður um kosti og galla leiksins. Síðan þá hefur umræðan verið tekin upp reglulega.

Rétt er að taka fram að hernaðartengt tungutak á sér langa hefð í sögu KFUM og KFUK á Íslandi meðal annars í sálmum eins og Áfram Kristsmenn Krossmenn og Sjáið merkið, Kristur kemur. Þrátt fyrir að ég stýrt mjög gagnrýnum umræðum fyrir nær 16 árum þá er leikurinn enn hluti af dagskránni hjá okkur og var eins og áður sagði í boði eftir hádegi með þátttöku allra drengjanna á staðnum, og eins og alltaf áður var gífurlega mikil stemmning fyrir þessari hefð í starfinu.

Hermannaleikurinn er í raun aðeins tveggja liða eltingarleikur, þar sem hvort lið um sig fær armband og klemmur á upphandlegg og drengirnir keppast um að kippa klemmunum hvor af öðrum án þess að meiða andstæðinginn. Ef drengirnir missa klemmuna, geta þeir haldið heim á bækistöð liðs síns, fengið nýja klemmu og haldið áfram leiknum. Það lið sem safnar fleiri klemmum sigrar.

Meðvitund starfsmanna um gagnrýni á leikinn og þátttaka í umræðum um kosti og galla þess að bjóða upp á þennan dagskrárlið er dæmi um spennandi og gróskumikla umræðu meðal starfsmanna sem leitast stöðugt við að bæta starfið í sumarbúðunum. Einhverjum kann að finnast að rétt niðurstaða skipti meira máli en hvernig staðið er að umræðunni, það er hins vegar mín trú að vönduð lýðræðisleg umræða sé að öðru jöfnu grundvallarforsenda þess að starfið í Skóginum þróist á sem bestan veg.

Hægt er að sjá ljósmyndir frá 8. flokki á slóðinni: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157683821629314

Ef þú þarft að hafa samband við okkur í Vatnaskógi, er hægt að senda tölvupóst á netfangið elli@vatnaskogur.net.