Stúlknaflokkur sumarsins fer frábærlega af stað í norðaustanáttinni hér í Svínadal. Þar sem stúlkurnar eru aðeins 24 höfum við lagt minni áherslu á fjölbreytt val en lagt þeim mun meira í þá dagskrá sem boðið er upp á.

Í gær var m.a. byrjað með hópeflisleikjum sem allar stúlkurnar tóku þátt í, að því loknu fór hópurinn í stutta gönguferð í skóginum með viðkomu í litlu klettabelti hér austan við staðinn. Þá var einnig boðið upp á 60m hlaup og langstökk, kubb, skotbolta, heita potta og listasmiðju í gær, svo það helsta sé talið upp.

Kvöldvakan gekk þrusuvel, stúlkurnar spyrja mikið, velta fyrir sér alskyns hlutum og morgunstundin nú í morgun varð aðeins lengri en ég hafði planað, enda margar spurningar sem kölluðu á svör.

Það er mikil gleði í hópnum öllum, reyndar stundum aðeins of mikið fliss fyrir minn smekk, en ég er líka orðinn „gamall“. Stúlkunum gekk samt vel að sofna í gær og það var komin algjör kyrrð rétt eftir kl. 11:00.

Framundan í dag er síðan spennandi dagskrá í íþróttahúsinu, en þar sem við vöknuðum við hávaðarok og rigningu í morgun, ákváðum við að hugmyndir um bátadagskrá og langar gönguferðir væru settar á bið í bili.

Myndir úr stúlknaflokki í Vatnaskógi 2017 eru á slóðinni https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157686869841375

Ef þú þarft að hafa samband við okkur í Vatnaskógi, er hægt að senda tölvupóst á netfangið elli@vatnaskogur.net.

Kveðja,
Halldór „Elli“ Guðmundsson