Dagurinn í gær var viðburðaríkur og endaði með fjörugu náttfatapartíi og kvikmyndakvöldi sem stóð fram yfir miðnætti, þannig að núna í morgunsárið fengu stúlkurnar að sofa út. Dagskrá verður með einföldu sniði fyrir hádegi, morgunverðarhlaðborð verður opið milli kl. 10-11 og dagskrá hefst kl. 11:00.

Eftir hádegi verður síðan boðið upp á báta ef veður leyfir, en því miður hefur ekki verið hægt að fara á bát alla þessa viku vegna stöðugrar norðaustanáttar. Ef ekki hefur lægt nægilega fyrir ára- og hjólabáta munu foringjarnir taka stúlkurnar í mótorbátsferðir á vatninu. Eftir kaffi höfum við a.m.k. þrjú mismunandi plön sem við getum fylgt, eftir því hvernig veðrið þróast, og eru þau hvert öðru skemmtilegra.

Hátíðarkvöldverður hefst síðan kl. 19:00 og í kjölfarið verður boðið upp á hátíðarkvöldvöku með endalausri skemmtun og fjöri.

Myndir úr stúlknaflokki í Vatnaskógi 2017 eru á slóðinni https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157686869841375. Myndirnar eru teknar á tvær mismunandi myndavélar og koma því ekki alltaf í réttri tímaröð.

Það er metnaður okkar sem störfum í Vatnaskógi að gera gott starf enn betra. Ef þú hefur ábendingar, athugasemdir eða vilt hafa samband við okkur hér í Vatnaskógi getur þú sent tölvupóst á elli@vatnaskogur.net.