Gauraflokkur heldur áfram í skóginum. Nú eru allir drengirnir orðnir Skógarmenn, en það gerist þegar þeir hafa dvalið tvær nætur í Vatnaskógi.

Það ringdi töluvert á okkur í gær en það virtist ekki hafa nein áhrif á skemmtun strákanna. Bátarnir halda áfram að vera vinsælir ásamt Því að margir hafa sótt í listasmiðjuna og smíðaverkstæðið. Þar eru ótrúleg listaverka að verða til. Í gær var einnig boðið upp á skógarferð og málmleit, en Vatnaskógur á nokkur málmleitartæki til láns.

Kvöldvakan var á sínum stað og var strákunum boðið að taka þátt í leikriti að þessu sinni, við miklar undirtektir. Einnig fengum við að sjá ótrúlegt skemmtiatriði frá einum drengjanna. Framhaldssagan heldur áfram og er heldur betur að verða spennandi.

Það er nóg að gera hjá okkur og voru það þreyttir en sáttir menn sem sofnuðu í gærkvöldi í Vatnaskógi.

Núna fyrir hádegi bjóðum við upp á kúluvarp og spretthlaup úti á íþróttavell. Þá verður grímugerð í listasmiðjunni, sem er alltaf vinsæl. Í morgunmatnum heyrðum við um móður Teresu og fórum við yfir hvaða góðu orð við notum þegar við tölum við vini. Þeir komu sjálfir með margar góðar tillögur sem voru skrifaðar upp á töflu. Strákarnir eiga hrós skilið fyrir að standa sig vel og sýna hvorum öðrum virðingu. Einnig eiga margir litlir sigrar sér stað á hverjum degi, sumir eru að gista utan heimilis í fyrsta skipti og getur það stundum tekið á.

 

Með kveðju

Ásgeir Pétursson, forstöðumaður