Þá er komið að síðasta heila deginum í Gauraflokki í ár, sá dagur er yfirleitt kallaður Veisludagur og er frábrugðinn öðrum dögum að því leyti að við borðum fínni mat og erum með sérstaka kvöldvöku í kvöld. Þá verða afhentir bikarar fyrir frammistöðu í hinum ýmsu íþróttagreinum og keppnum. Við höfum verið með listakeppni, skákmót, kúluvarp, spretthlaup og spjótkast, svo eitthvað sé nefnt. Von er á fleiri keppnum nú í dag sem verður spennandi að fylgjast með.

Nú í morgun vorum við með fræðslu og fórum yfir hvað á að gera þegar við reiðumst. Strákarnir komu með margar góðar hugmyndir sem skrifaðar voru upp á töflu. Eftir morgunmatinn buðum við upp á kynnisferð um leyndardóma eldshússins í Vatnaskógi, en það er búið ýmsum tækjum til að matreiða góðan mat fyrir stóra hópa. Eftir það fengu áhugasamir að hjálpa til við bakstur, eflaust fáum við að sjá afraksturinn í kaffinu.

Mikið stuð verður við vatnið núna fyrir hádegi og geta strákarnir klárað verkin sem þeir hafa verið að vinna að í listasmiðjunni og smíðaverkstæðinu. Þá verður langstökk án atrennu í íþróttahúsinu.

Ég minni á að myndir úr flokknum má finna hér: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157667894178907

Með kveðju

Ásgeir Pétursson, forstöðumaður