Í gær mættu um 100 drengir, 9-11 ára í Vatnaskóg.

Það var spenna í hópnum enda gaman að koma í sumarbúðir. Gerð var smá könnum meðal drengjanna þá höfðu u.þ.b. 70 % þeirra ekki komið í Vatnaskóg áður.

Tekið var á móti hópnum í Matskála staðarins, þar dreifast drengirnir við 7 borð en borðin eru hóparnir sem þeir tilheyra meðan á dvölinni stendur. Á hverju borði er borðforingi sem hefur umsjón með sínum hóp. „Borðin“ sofa einnig saman í herbergjum en hvert borð dreifist á 2-3 herbergi en herbergin í Birkiskála þar sem allir drengirnir sofa eru 4,6 eða 8 manna. Nú er Birkiskáli II kominn í fulla nokun en verklokum var fagnað í síðasta mánuði og er það til mikilla hagsbóta fyrir starfsemina.

Dagurinn í Vatnaskógi byggist upp á því að á milli matartíma er boðið upp á frjálsa dagskrá þar sem drengirnir geta valið sér mismunandi verkefni og farið á milli staða. Hefðbundið dagsskipulag er á þessa leið:

 

Kl. 08:30 Vakið

09:00 Morgunmatur

Morgunstund með fræðslu þar sem við kennum um Biblíuna og orð Guðs.

Frjáls tími t.d. knattspyrna, bátar, íþróttahús, útileikir, frjálsar íþróttir og smíðaverkstæði.

12:00 Hádegismatur – heit máltíð

Frjáls tími

15:00 Kaffitími

Frjáls tími

18:00     Kvöldmatur

Frjáls tími

20:30 Kvöldkaffi / Kvöldvaka með söng, leikriti, framhaldssögu og hugvekju.

Bæna- og kyrrarstund í Kapellu (fyrir þá sem vilja)

Farið í háttinn

 

Dagskráin fór vel að stað í gær og vakti mikla athygli hve þátttakan í íþróttum var mikil. Bátar voru mjög vinsælir og smíðaverkstæðið sem staðsett er á efri hæð Bátaskýlisins. Einnig var boðið upp á gönguferð um staðinn og eins nota margir þennan fyrsta dag til að kynnast staðnum og öllu því sem boðið er upp á. Vatnaskógarkvöldvaka í lok dags er sívinsæl og það voru því allir orðnir þreyttir þegar farið var að sofa.

Flokkurinn hefur farið vel af stað og hlakkar okkur til að kynnast drengjunum betur næstu daga.

Eins og gengur með hóp eins og þennan hefur örlítið borið á heimþrá, það er eðlilegt, enda stórt skref að fara frá foreldum sínum. Það hefur gengið vel að fá þá drengi til að taka þátt í dagskráni en þeir gleyma þeir sér við leik og þannig fjarar heimþráin oft út. Við höfum samband við foreldra ef upp kemur heimþrá. Það getur reynst gott fyrir marga drengi að fá að heyra í foreldrum sínum og vera hvattir til dáða.

Maturinn: Í gær var boðið var upp á kjötbollur í hádegismat heimabakað í kaffinu og sveppasúpa í kvöldmat. Í kvöldkaffi var boðið uppá mjólk og kex. Í dag var kjúklingur og franskar í hádegismat.

Veðrið: Í dag, fimmtudag, er rigning eða úði með köflum og vindur svo bátarnir eru því miður lokaðir.

Myndir: Myndir frá deginum í gær og aðeins í dag eru HÉRNA!

Símatími: Við minnum á símatími milli kl. 11 og 12 ef foreldrar vilja hafa samband. Síminn í Vatnaskógi er 433 8959.

Starfsmenn: Foringjar í 2. flokki 2018 sem annast dagskrá og umönnun drengjanna eru: Eiríkur Skúli Gústafsson (19 ára), Dagur Adam Ólafsson (20 ára), Kári Þór Arnarsson (21 árs), Gunnar Hrafn Sveinsson (22 ára), Ástráður Sigurðsson (18 ára), Baldur Ólafsson (49 ára), Ólafur Gunnar Long (35 ára), Jón Ómar Gunnarsson (35 ára), Pétur Ragnarsson (40 ára) og Ársæll Aðalbergsson (56 ára) forstöðumaður og hefur yfirumsjón með öllu sem fram fer í Vatnaskógi þessa daga

Eldhúsi og þrifum er stýrt af Ingibjörgu Lóreley Zimsen Friðriksdóttur en henni til aðstoðar eru Benjamín Pálsson, Birta Lind Guðmundsdóttir, Fannar Hannesson og Þórhildur Einarsdóttir,

Þess utan eru fjórir sjálfboðaliðar á svæðinu, ungir framtíðarleiðtogar sem grípa í hvers kyns verkefni, hvort sem það er aðstoð í gönguferðum, uppvask, smíðar eða skipulag leikja undir umsjón foringja, þau Donna María, Ísak Einarsson, Jakob Freyr Einarsson.

Þá eru þeir Sigurður Jóhannesson og Þórir Sigurðsson á staðnum og sinna ýmsu daglegu viðhaldi á tækjum og húsnæði

Ef þú þarft að hafa samband við okkur í Vatnaskógi, er hægt að senda tölvupóst á netfangið arsaell@kfum.is

Bestu kveðju, Ársæll Aðalbergson, forstöðumaður