Í mörg ár hef ég byrjað fyrstu dagbókarfærslu nýs flokks með umfjöllun um heimþrá og hvernig við tökumst á við heimþrá hér í Vatnaskógi (eldri færsla, með fræðsluinnleggi í lokin). Það er hins vegar lítil þörf á því í þessum flokki, enda finna strákarnir sig með ólíkindum vel á staðnum. Auðvitað koma upp smávægilegir árekstrar í stórum hópi, og örfáum drengjum fannst erfitt að sofna í gær, en þeir tókust allir á við það verkefni að gista að heiman með miklum sóma.
Í gær var boðið upp á fjölbreytta dagskrá þar sem við opnuðum smíðaverkstæði, höfðum stutta kynningargönguferð um svæðið fyrir þá sem vildu, vorum með hópleiki, sigldum á bátum, kepptum í fótbolta og frjálsum íþróttum, fórum á kvöldvöku og buðum upp á HM stofu svo fátt eitt sé nefnt. Við vorum með sænskar kjötbollur í hádegisverð, buðum þeim upp á nýbakað kryddbrauð og kökusneið í kaffitíma, vorum með súpu og brauð í kvöldmat og loks mjólk og kex í kvöldkaffi. Nokkrir ungir drengir sáu ástæðu til að nefna að við værum „sko ekki að bjóða upp á neinn skólamat, þetta væri sko allt miklu betra í Vatnaskógi.“
Á kvöldvökunni heyrðu drengirnir söguna af samskiptum Jesú og lögvitrings (Lúk 10.25-37), þar sem Jesús segir síðan söguna af Miskunnsama Samverjanum.
Veðrið var til friðs í gær, þrátt fyrir örlitla vætu og að sólin hafi fallið sig bakvið skýin allan daginn. Í dag stefnir hins vegar í einn af þremur sumardögum nú í ár, þannig að öllu verður flaggað til eftir hádegi, þegar farið verður í spennandi leik út í skógi. Sandströnd Skógarmanna, Costa Del Oddakot, verður heimsótt og boðið upp á fjölbreytta útidagskrá.
ATH. Orðið stemning í fyrirsögn var upphaflega vitlaust stafsett og hefur nú verið leiðrétt.