Eftir að hafa gist í tvær nætur í Vatnaskógi í hefðbundnum dvalarflokki í sumarbúðunum eru dvalargestir með formlegum hætti Skógarmenn KFUM. Við segjum stundum að þeir gangi inn í eigandahóp sumarbúðanna Vatnaskógi ásamt með 14-15.000 öðrum núlifandi Íslendingum.

Dagskráin í gær var að mestu hefðbundin, með bátum, smíðaverkstæði, íþróttum og leikjum. Hápunktur dagsins var þó hermannaleikurinn, spennandi eltingaleikur í skóginum þar sem tvö lið keppa um að ná þvottaklemmum af andstæðingum sínum. Í lok leiksins gátu síðan drengirnir notið sandstrandarinnar í Oddakoti og vaðið í vatninu. Kvöldvaka kvöldsins sló að venju í gegn og eftir kvöldvökuna var þeim drengjum sem höfðu áhuga boðið að fara á bænastund með starfsmanni í kapelluna í Vatnaskógi sem sumir þáðu, en á slíkri stund er myndmál í kapellunni kynnt, tvær setningar úr Biblíunni eru lesnar og útskýrðar og boðið upp á þögn til íhugunar eða persónulegrar bænar.

Í hádegismat í gær var kjúklingakarrýréttur og í kvöldmat buðum við þeim upp á grillaðar pylsur.

Hægt er að sjá myndir frá flokknum á https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157696501645441.

Það er metnaður okkar sem störfum í Vatnaskógi að gera gott starf enn betra. Ef þú hefur ábendingar, athugasemdir eða vilt hafa samband við okkur hér í Vatnaskógi getur þú sent tölvupóst á elli@vatnaskogur.net.