Í dag, sunnudag 24. júní, er síðasti dagur 3. flokks þetta árið. Drengirnir verða vaktir 30 mínútum seinna en venjulega, eða kl. 9:00. Morgunmatur hefst kl. 9:30 og að honum loknum er fánahylling og Skógarmannaguðsþjónusta. Að henni lokinni verður leikur Stjörnuliðs og Draumaliðs í knattspyrnu og þá munu drengirnir pakka og ganga frá farangri sínum fyrir hádegismat.
Eftir hádegisverð verður boðið upp á fjölbreytta og spennandi dagskrá fram að lokasamveru flokksins sem hefst um kl. 14:15. Þar munum við horfa á tvær stuttmyndir. Annars vegar „Áfram að markinu“, sem var gerð 2013 í tilefni 90 ára afmælis starfsins í Vatnaskógi og hins vegar 11 mínútna kynningu á starfi Sr. Friðriks Friðrikssonar sem var útbúin í tilefni 150 ára afmælis Sr. Friðriks nú í maí.
Drengirnir fá kaffihressingu kl. 15:00 og í kjölfarið auglýsir starfsfólkið óskilaföt sem hafa fundist á víð og dreif um Vatnaskóg þessa viku.
Rúturnar leggja af stað til Reykjavíkur um kl. 16:05 og foreldrar sem hyggjast sækja börnin sín upp í Vatnaskóg þurfa að vera komin á svæðið í síðasta lagi kl. 15:55. Ef drengirnir verða sóttir er mikilvægt að við vitum það í tíma svo drengirnir geti sett farangurinn sinn til hliðar og hann fari ekki í rútuna.
Hægt er að sjá myndir frá flokknum á https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157696501645441. Búið er að setja inn myndir frá verðlaunaafhendingu á kvöldvökunni í kvöld.
Þetta er síðasta færslan frá 3. flokki 2018. Við sem störfum í Vatnaskógi erum þakklát fyrir það traust sem foreldrar sína okkur með því að senda börn sín í sumarbúðir og tökum það traust alvarlega. Það er enda metnaður okkar sem störfum í Vatnaskógi að gera gott starf enn betra. Ef þú hefur ábendingar, athugasemdir eða vilt hafa samband við okkur hér í Vatnaskógi í tengslum við 3. flokk getur þú sent tölvupóst á elli@vatnaskogur.net eða haft samband við skrifstofu KFUM og KFUK í Reykjavík, sími 588 8899.