Gærdagurinn náði hápunkti þegar að drengirnir sungu með í þjóðsöngnum fyrir leik Íslands og Nígeríu. Spennan var mikil og vonbrigðin nokkur þegar Nígeríumenn skoruðu sitt fyrsta mark. Við seinna mark Nígeríumanna fækkaði nokkuð í HM stofunni hér í Vatnaskógi, en drengirnir komu þó hlaupandi til baka til að sjá Gylfa taka vítið. En það kemur leikur eftir þennan leik.

Annars var fjölbreytt dagskrá bæði fyrir og eftir leik. Skákmótið hélt áfram, drengirnir kepptu knattspyrnuleiki í Skeljungsbikarnum og nokkra leiki í Svínadalsdeildinni. Boðið var upp á origamiföndur, málmleitartækin voru tekin fram, heitu pottarnir voru opnaðir og drengjunum sagt að fara í sturtu og skipta um föt ef þeir hefðu gert það einungis einu sinni í flokknum fram til þessa.

Framundan er síðan veisludagur. Við byrjum daginn á forkeppni fyrir Biblíuspurningakeppni milli borða, þá verða frjálsar íþróttir, Skeljungsbikarinn í knattspyrnu heldur áfram, drengirnir etja kappi við foringja í knattspyrnu þegar líður á daginn og síðan endar dagurinn á veislukvöldverði og -kvöldvöku þar sem drengirnir fá viðurkenningar fyrir árangur í margvíslegum keppnum og verkefnum, hið sívinsæla Sjónvarp Lindarrjóður verður sýnt og loks boðið upp á Skonrokk, sem á sér tuga ára sögu hér í skóginum.

Hægt er að sjá myndir frá flokknum á https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157696501645441.

Það er metnaður okkar sem störfum í Vatnaskógi að gera gott starf enn betra. Ef þú hefur ábendingar, athugasemdir eða vilt hafa samband við okkur hér í Vatnaskógi getur þú sent tölvupóst á elli@vatnaskogur.net.