Þrátt fyrir að 4. flokkur hafi byrjað á rólegu nótunum í gær, var boðið upp á fjölbreytta dagskrá. Knattspyrnumótið fór í gang, frjálsíþróttamótið hófst með keppni í kúluvarpi, boðið var upp á smíðaverkstæði og báta. Einhverjir drengir stöldruðu við í HM stofunni okkar og horfðu á fótboltaleiki eða gripu í spil. Aðrir fóru í stuttar gönguferðir um svæðið og allir tóku þátt í hópleikjum eftir hádegisverð.
Kvöldvakan í kvöld var vönduð að vanda en hún endaði á sögu af samskiptum Jesú og lögvitrings (Lúk 10.25-37), þar sem Jesús segir söguna af Miskunnsama Samverjanum, til að minna lögvitringinn og okkur öll á mikilvægi þess að þjóna og aðstoða náunga okkar.
Þegar drengirnir komu á svæðið í gær var boðið upp á sænskar kjötbollur með kartöflumús, grænmeti, sósu og sultu. En í kvöldmat var síðan boðið upp á brauð og aspassúpu sem nokkrir drengir sögðu að væri besta súpa sem þeir hefðu smakkað. Í lok dags gefa borðforingjar stig fyrir hegðun á svæðinu og sjaldan hef ég séð jafnháa stigagjöf á fyrsta kvöldi flokks, sem merkir annað hvort að foringjarnir séu óvenjugjafmildir á stig þessa vikuna, eða að drengirnir hafi hegðað sér með eindæmum vel í gær. Ég hallast að hinu síðarnefnda.
Myndir frá flokknum birtast á slóðinni https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157695235709162.
Það er metnaður okkar sem störfum í Vatnaskógi að gera gott starf enn betra. Ef þú hefur ábendingar, athugasemdir eða vilt hafa samband við okkur hér í Vatnaskógi getur þú sent tölvupóst á elli@vatnaskogur.net.