Í gær var sannkallaður ævintýradagur í Vatnaskógi. Boðið var upp á drulluknattspyrnu, fjallgöngu, vatnatrampólín og vatnafjör svo fátt eitt sé nefnt. Kvöldvakan var í styttri kantinum en í stað þess að segja kvöldsögu buðum við drengjunum að horfa á miðnæturbíó, sögu C.S. Lewis, Ljónið, nornin og skápurinn. Það er óhætt að segja að myndin hafi slegið í gegn og ómælt magn af poppi var borðað með myndinni.
Popp var þó ekki eina næringin í dag. Í hádeginu var boðið upp á fisk með grænmæti og kúskús, í kaffinu voru að venju nýbakað bakelsi og í kvöldmat var boðið upp á ávaxtasúrmjólk og brauð.
Myndir frá flokknum birtast á slóðinni https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157695235709162.
Það er metnaður okkar sem störfum í Vatnaskógi að gera gott starf enn betra. Ef þú hefur ábendingar, athugasemdir eða vilt hafa samband við okkur hér í Vatnaskógi getur þú sent tölvupóst á elli@vatnaskogur.net.