Eftir langa dagskrá í fyrradag, ákváðum við að leyfa drengjunum að sofa út í gærmorgun og hefja ekki dagskrá fyrr en með valfrjálsum morgunmat kl 10 og morgunstund kl 10:30.

Að stundinni lokinni fóru drengirnir í skotbolta í íþróttahúsinu, því næst var grísasnitzel í hádegisverð og síðan var haldið í sund í sundlauginni á Hlöðum. Eftir kaffi var síðan boðið upp á hermannaleik, sem er tveggja liða eltingaleikur þar sem notast er við fataklemmur. Þá var auk þess boðið upp á knattspyrnu, spjótkast, skákmót og HM stofu þegar leið á daginn. Kvöldmaturinn var síðan pastaréttur með hvítlauksbrauði.

Á kvöldvökunni var sýnd ný 15 mínútna heimildamynd um Sr Friðrik Friðriksson sem var unnin af kvikmyndafyrirtækinu Risamyndum í tilefni 150 ára afmælis þess merka æskulýðsfrömuðar.

Fáar myndir voru teknar í dag. En myndir frá flokknum birtast á slóðinni https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157695235709162.

Það er metnaður okkar sem störfum í Vatnaskógi að gera gott starf enn betra. Ef þú hefur ábendingar, athugasemdir eða vilt hafa samband við okkur hér í Vatnaskógi getur þú sent tölvupóst á elli@vatnaskogur.net.