Dagskráin í gær var hefðbundin, fjölbreytt dagskrá þar sem allir drengirnir tóku þátt í hermannaleiknum eftir hádegisverð. Hermannaleikurinn er tveggja liða eltingaleikur þar sem Haukdælir og Oddverjar berjast til sigurs. En leikurinn notast við fataklemmur, sem drengirnir leitast við að ná hvor af öðrum án snertingar. Þá var auk þess boðið upp á knattspyrnu, skákmót og HM stofu þar sem leikur Englands og Króatíu var sýndur. Kvöldmaturinn var síðan pastaréttur með hvítlauksbrauði.

Á kvöldvökunni var síðan samkvæmt venju leikrit og framhaldssaga, auk þess sem drengirnir heyrðu frásögn Jóhannesarguðspjalls af því þegar Jesús mettaði 5000 með fimm brauðum og tveimur fiskum (Jóhannesarguðspjall 6.1-15) og lærðu að hægt væri að skilja söguna á fleiri en eina vegu. Þannig hafi kraftaverk sögunnar e.t.v. ekki falist í því að Jesús margfaldaði brauðið heldur að Jesús og drengurinn hafi með atferli sínu kallað fram það besta í fólkinu sem hafði safnast saman og allir hafi í kjölfarið ákveðið að deila nesti sínu með öðrum.

Til að útskýra þetta frekar, deildi ég með drengjunum sögu af eldri konu á flugbrautinni í Jacmel, Haiti, nóttina eftir jarðskjálftann þar í janúar 2010. En konan tók allt sem hún hafði, einn banana, skar í smáa bita og deildi með öðrum í kringum sig, gekk á undan með góðu fordæmi og kallaði þannig aðra til að draga fram sínar birgðir af mat og vatni til að deila með þeim sem höfðu safnast þar saman.

Dagskráin í dag á veisludegi er mjög hefðbundin hér í Vatnaskógi. Drengirnir munu etja kappi við foringja í knattspyrnu, boðið verður upp á smíðaverkstæði og báta. Brekkuhlaupið er á sínum stað og veislukvöldverður flokksins verður á sínum stað.

Myndir frá flokknum birtast á slóðinni https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157668955720317.

Það er metnaður okkar sem störfum í Vatnaskógi að gera gott starf enn betra. Ef þú hefur ábendingar, athugasemdir eða vilt hafa samband við okkur hér í Vatnaskógi getur þú sent tölvupóst á elli@vatnaskogur.net.

Ljósmyndin með þessari frétt var tekin á flugvellinum í Jacmel Haiti, aðfararnótt 13. janúar 2010, í kjölfar jarðskjálftans sem skók eyjuna daginn áður. Á flugvellinum höfðu friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna sett upp neyðarbúðir fyrir íbúa Jacmel borgar.