Sjöundi flokkur í Vatnaskógi hófst af krafti í gær. Boðið var upp á gríðarlega fjölbreytta dagskrá enda ævintýraflokkur þessa vikuna. Frjálsíþróttamótið fór í gang með 60.metra spretthlaupi og fyrstu leikir í knattspyrnumótinu voru leiknir. Einhverjir drengir stöldruðu við í HM stofunni okkar þar sem leikurinn um bronsið var sýndur. Bátarnir voru opnir og boðið var upp á að vaða í vatninu, íþróttahúsið var opið þar sem keppni í borðtennis hófst ásamt ýmsu fleiru.
Veðrið í gær var ágætt en sólin lét sjá sig eftir hádegi og drengir og starfsfólk voru mjög þakklát fyrir það. En drengirnir léku sér mikið úti á meðan sólin skein. Kvöldvakan var með hefðbundnu sniði og fengu drengirnir að sjá stuttmynd um æskulýðsleiðtogann sr. Friðrik Friðriksson. Eftir kvöldvöku var farið í hermannaleik en leikurinn er tveggja liða eltingaleikur þar sem Haukdælir og Oddverjar berjast til sigurs. En leikurinn notast við þvottaklemmur, sem drengirnir leitast við að ná hvor af öðrum án snertingar.
Á matseðlinum í gær var boðið upp á sænskar kjötbollur með kartöflumús, grænmeti, sósu og sultu í hádegismat. Nýbakað í kaffinu og í kvöldmat var síðan boðið upp á brauð og sveppasúpu.
Foringjar sem annast dagskrá og umönnun drengjanna þessa vikuna eru Fannar Logi Hannesson, Ástráður Sigurðsson, Gunnar Hrafn Sveinsson, Matthías Guðmundsson, Jóel Fjalarsson, Hjalti Jóel Magnússon og Ögmundur Ísak Ögmundsson. Þeim til halds og trausts er Ásgeir Pétursson. Forstöðumaður flokksins er Þór Bínó Friðriksson (starfsmaður síðan 2004).
Eldhúsi og þrifum er stýrt af Ingibjörgu Lóreley Zimsen Friðriksdóttur. Henni til aðstoðar eru þær Gunnhildur Einarsdóttir, Sara Lind Sveinsdóttir, Harpa Vilborg R. Schram og Anna Lovísa Daníelsdóttir.
Þess utan eru ungir matvinnungar á svæðinu, framtíðarleiðtogar í starfi KFUM og KFUK sem koma sem sjálfboðaliðar og grípa í hvers kyns verkefni á svæðinu, hvort sem það er aðstoð í gönguferðum, uppvask, smíðar, frágangur og tiltekt á svæðinu eða skipulag leikja undir umsjón foringja. Matvinnungar þessa vikuna verða þau Ása Hrönn Magnúsdóttir og Ísak Jón Einarsson.
Þá verða Þórir Sigurðsson og Sigurður Jóhannesson í flokknum og koma að ýmsu daglegu viðhaldi á tækjum og húsnæði.
Við stefnum að því að birta fréttir úr Vatnaskógi hvern dag með helstu upplýsingum um hvað er að gerast í skóginum. Ef þú þarft að hafa samband við okkur í Vatnaskógi, er hægt að senda tölvupóst á netfangið bino@re.is eða hafa samband í síma: 4338959