Nú eru krakkarnir í 8. flokki Vatnaskógar þetta sumarið að verða búin að vera sólarhring í Skóginum. Þetta er fyrsti blandaði flokkur í Vatnaskógi fyrir þennan aldurshóp og er fyrsti dagurinn búinn að vera mjög skemmtilegur. Eftir hádegismat var byrjað á smá samhristingi og var síðan haldið af stað í að kynnast staðnum. Meirihluti flokksins skellti sér á bátana og einnig naut fólkið þess að rölta og/eða hlaupa um svæðið, sumir brunandi um í kassabílum. Íþróttahúsið bauð upp á billiard/pool, borðtennis, fótboltaspil og skotbolta og annað gaman í íþróttasalnum. Eftir kaffi fór Svínadalsdeildin í knattspyrnu síðan í gang og borðtennismótið er einnig hafið sem og frjáls íþróttamótið sem hófst með 60 m spretthlaupi í gær. Einhverjir hafa líka verið á smíðaverkstæðinu og þau voru nokkur sem að tóku sig til og byrjuðu að smíða svínagildrur, en Vatnaskógur er einmitt í Svínadal. Því miður er ólíklegt að nokkur svín veiðist í gildrurnar, en það verður spennandi að sjá hvað gerist. Krakkarnir njóta þess sem í boði er og bátarnir virðast standa sérstaklega upp úr.
Veðrið hefur verið svipað og sumarið þetta árið, rigning og skýjað, en við höldum í vonina að það glitti í sól meira eins og gerði reyndar aðeins í gærkveldi. Einhverjir krakkanna nýta tímann hins vegar og eru byrjuð að láta reyna á hvort að rigning sé góð fyrir veiðina í Eyrarvatni.
Á matseðlinum í gær var boðið upp á sænskar kjötbollur með kartöflumús, grænmeti, sósu og sultu í hádegismat. Í kaffitímanum var nýbökuð kaka og kryddbrauð með smjör og osti og síðan aspassúpa í kvöldmat. Einnig fengu þau smá kex í kvöldkaffi. Á kvöldvökunni var síðan líf og fjör, mikið sungið, leikfélagið Villiöndin sýndi gamanleik og annar forstöðumanna, hún Gríma Katrín, flutti krökkunum hugleiðingu.
Foringjar sem annast dagskrá og umönnun drengjanna þessa vikuna eru Dagur Ólafsson, Hjalti Jóel Magnússon, Jóel Fjalarsson, Mirra Ólafsdóttir, Sveinn Elliði Björnsson og Þórdís Hafþórsdóttir. Forstöðumenn flokksins eru Gríma Katrín Ólafsdóttir og Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson.
Eldhúsi og þrifum er stýrt af Ingibjörgu Lóreley Zimsen Friðriksdóttir. Henni til aðstoðar eru þær Anna Laufey Halldórsdóttir, Gunnhildur Einarsdóttir, Harpa Vilborg R. Schram og Sara Lind Sveinsdóttir.
Einnig erum við með framtíðarleiðtoga sem að aðstoða við hin ýmsu verkefni. Matvinnungar þessa vikuna eru þær Bína Hrönn Hjaltadóttir, Eva, Hildur Anna Geirsdóttir og Snædís Hallgrímsdóttir. Þá verða Þórir Sigurðsson og Sigurður Jóhannesson í flokknum og koma að ýmsu daglegu viðhaldi á tækjum og húsnæði.
Við stefnum að því að birta fréttir úr Vatnaskógi hvern dag í kringum hádegið (rétt fyrir eða eftir hádegismat) með helstu upplýsingum um hvað er að gerast í skóginum og einnig munum við birta myndir reglulega hér á flickr. Ef þú þarft að hafa samband við okkur í Vatnaskógi, þá er hægt að senda tölvupóst á netfangið benjaminrs@hi.is eða hava samband í síma: 433-8959.
Fyrir hönd forstöðumanna,
Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson