Stærsti dagskrárliður gærdagsins var vatnafjör þar sem að vatnatrampólín var tekið út á vatn og fengu krakkarnir að vaða aðeins í Eyravatni, hoppa á trampólíninu og njóta þess sem vatnið hefur upp á að bjóða. Svínadalsdeildin í knattspyrnu hélt einnig áfram sem og fráls íþróttakeppnin þar sem að krakkarnir fengu tækifæri að spreyta sig í spjótkasti, kúluvarpi og 400m hlaupi. Skotbolti og brennó hafa einnig verið vinsæl í íþróttasalnum og pool, borðtennis og stangartennisin svíkja engan.

Í dag stefnum við síðan að því að fara í hermannaleik Vatnaskógar þar sem að sögur herma að skógarskrýmslið Húgó muni láta sjá sig, og mögulega aparnir Hip og Hap, og munu krakkarnir reyna að ná hárkollu eða höfuðfati þeirra til að fá aukastig fyrir lið sitt. Almennt erum við síðan með frjálsan tíma milli allra matmálstíma þar sem að iðulega er boðið upp á 3-4 sérstaka dagskrárliði, svo sem mót í íþróttahúsinu, báta, smíðar, knattspyrnu, frjálsar, skógarleiðangra og ýmislegt annað.

Maturinn í gær var ekki af verri endanum en það var fiskur í raspi í hádegismat, kókosbollur, súkkulaðikaka og bolla með osti í kaffinu og pasta í kvöldmat. Í kvöldhressingu fengum við síðan ferska ávexti. Í þeim tilvikum sem að fæðuofnæmi eða óþol er til staðar, þá bjóðum við þeim krökkum síðan upp á annan ljúffengan mat í staðinn.

Fleiri fréttir munu birtast á morgun og næstu daga. Ef þú þarft að hafa samband við okkur í Vatnaskógi, er hægt að senda tölvupóst á netfangið benjaminrs@hi.is eða hafa samband í síma: 433-8959.

HÉRNA er síðan hægt að finna myndir úr flokknum, en við reynum að birta myndir reglulega í gegnum flokkinn.