Nú er upp runninn veisludagur í Vatnaskógi og má gera fyrir lífi og fjöri í dag og þá sérstaklega á veislukvöldvökunni í kvöld. En byrjum á fréttum frá gærdeginum. Lítið var um rigningu í gær en það var þó nokkur vindur þó og voru bátarnir því því miður lokaðir mest allan daginn. Hins vegar var nóg annað að gera og ber þar hæst að nefna sundlaugarpartý eftir kaffi þar sem við fórum í sundlaugina að Hlöðum og skemmtum okkur þar vel í lauginni með partýtónlist, dans og fleiru. Fyrr um daginn hafði verið boðið upp á víðavangshlaup þar sem krakkarnir hlaupa hringinn í kringum vatnið (um 4,2 km) og þurfa að vaða yfir tvo ósa á leiðinni. 15 hetjur hlupu þetta hlaup og stóðu sig ótrúlega vel. Einnig var líf og fjör í íþróttahúsinu yfir daginn, auk spila og leikja í Birkiskála, og sum prufuðu „Human foosball“ (þar sem að maður heldur í stangir eins og í fótboltaspilum, og spilar síðan fótboltann). Eftir kvöldvöku og kvöldkaffi, vorum við síðan með bíókvöld með poppi í Lindarjóðri í Birkiskála þar sem að við horfðum á gaman- og hasarmyndina Johnny English, Reborn með Rowan Atkinson.

Í hádegismatinn í gær var boðið upp á kjúklingaleggi og franskar, og í kaffinu voru síðan kanilsnúðar, kaka með glassúr og einnig fengum við klessukökur. Í kvöldmatnum grilluðum við síðan pylsur og í kvöldkaffinu voru ávextir (bananar, epli og appelsínur).

Á veisludegi er síðan hefð fyrir því að bjóða upp á brekkuhlaup sem að hófst um kl. 11 í morgun eftir Biblíulestur morgunsins. Í Biblíulestrinum var einnig forkeppni Biblíuspurningakeppninnar en þau tvö borð sem stóðu sig best þar munu etja kappi í úrslitunum á veislukvöldvökunni í kvöld. Eftir kaffi verður síðan foringjaleikur í knattspyrnu þar sem að úrvalslið krakkana fær að etja kappi við okkur foringjana. Í dag fá krakkarnir líka tækifæri til að fara í smá mótorbát túr á vatninu með bátaforingjunum og má gera ráð fyrir að þau eiga mörg eftir að nýta sér það tilboð.

Ef þú þarft að hafa samband við okkur í Vatnaskógi, er hægt að senda tölvupóst á netfangið benjaminrs@hi.is eða hafa samband í síma: 433-8959.

HÉRNA er síðan hægt að finna myndir úr flokknum, en við reynum að birta myndir reglulega í gegnum flokkinn. Stefnt er að því að nýjar myndir verði komnar inn fljótlega eftir hádegismat.

Fyrir hönd forstöðufólksins,
Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson