Fyrst viljum við minna á að foreldrar/forráðamenn og aðrir nánir aðstandendur (svo sem systkini) drengja í 9. flokki Vatnaskógar eru boðin velkomin í heimsókn upp í Vatnaskóg, sunnudaginn 29. júlí, milli kl. 14-16. Gestir eru beðnir um að leggja í merkt stæði við veginn fyrir ofan húsin og virða heimsóknartímann.
Dagskráin á heimsóknartímanum verður sem hér segir:
14:00 Móttaka fyrir framan matskálann.
14:10-15:30 Frjálsar íþróttir á stóra íþróttavellinum.
14:10-15:30 Bátar opnir (ef veður leyfir) og smíðaverkstæði.
14:10-15:30 Hoppukastalar í íþróttahúsinu (fyrir 14 ára yngri).
14:10-15:30 Íþróttahúsið og svæðið þar í kring opið.
14:30-15:30 Knattspyrnufjör eða vítakeppni á kapelluflöt.
15:30-16:00 Kaffi fyrir utan Birkiskála
Við munum kynna fyrir strákunum að einhverjir ættingjar verði á svæðinu milli kl. 14-16 en að það séu alls ekki allir sem endilega komist. Mikil dagskrá er í boði og verður passað upp á að öllum líði vel hvort sem heimsókn næst eða ekki. Stutt er eftir af flokknum og veisludagur í vændum á morgun sem margir telja með viðburðarríkari dögum í hverjum flokki.
Annars var gærdagurinn skemmtilegur. Fyrri part dagsins átti vatnið hug og hjarta margra drengja, enda spegilslétt og frábærar aðstæður til veiða og að njóta sín á bátum. Svínadalsdeildin hélt áfram af miklum krafti, ýmis mót í íþróttahúsinu, skák, borðtennis, fótboltaspil, pool og svo komst þythokkí vélin sem búin er að vera biluð í nokkra daga loksins í gang við góðar undirtektir. Frjálsar íþróttir voru á sínum stað og öttu menn kappi m.a. í langstökki og svo fór hástökkið geysivinsæla fram. Einnig var boðið upp á svokallaðan hunger games leik sem er í einföldu máli sérstök Vatnaskógarútfærsla á eltingarleik þar sem lið og einstaklingar keppa í senn. Þá var kveikt á heitu pottunum sem eru meðal best geymdu leyndarmála staðarins. Nutu strákarnir þess að busla smá í Eyrarvatni og kíkja svo í pottana. Kvöldvakan var á sínum stað og var mikið stuð, glens og gaman.
Í hádeginu í gær fengum við Svínadals-grísasnitzel með kartöflu, sósu og grænmeti. Í kaffinu var boðið upp á kanilköku, kókosbollur og kryddbrauð. Ákveðið var að gefa reglulegu starfsfólki eldhúsins frí í kvöldmatnum og í þeirra stað elduðu forstöðumenn flokksins pylsur fyrir mannskapinn við góðar undirtektir. Í kvöldhressingu fengu strákarnir svo mjólkurkex og pólókex ásamt góðu mjólkurglasi.
Við stefnum að því að birta fréttir úr Vatnaskógi hvern dag í kringum hádegið (rétt fyrir eða eftir hádegismat) með helstu upplýsingum um hvað er að gerast í skóginum og einnig munum við birta myndir reglulega HÉR á flickr. Ef þú þarft að hafa samband við okkur í Vatnaskógi, þá er hægt að senda tölvupóst á netfangið benjaminrs@hi.is eða david@advel.is og um að gera að hafa samband í símatíma milli kl. 11-12 á morgnana í síma: 433-8959.
Fyrir hönd forstöðumanna,
Davíð Örn Sveinbjörnsson