Í dag er veisludagur í Vatnaskógi sem að margra mati er hápunktur hvers flokks. Í dag verða nokkrir sérstakir dagskrárliðir í boði í bland við hefðbundna dagskrárliði. Fyrir hádegi var hleypt af stað í Brekkuhlaupið víðfræga sem eingöngu er hlaupið á veisludegi, hlaupið er frá Gamla skála og upp að hliði og svo til baka. Þá munu verður hinn vinsæli foringjaleikur í knattspyrnu seinna í dag, þar sem strákalið etja kappi við lið foringja og starfsmanna. Undirbúningur fyrir veislukvöldmat er þegar hafinn í eldhúsinu og veislukvöldvakan verður í lengrir kantinum enda stútfull af skemmtun í hæsta gæðaflokki sem enginn vill missa af.

Eins og víða á Íslandi var talsverður vindur hér í Vatnaskógi í gær þannig að bátarnir voru lokaðir allan daginn, en þó náðist að fara einhverjar mótorbátsferðir um morguninn. Veðrið var þó heitt fyrri partinn og aðeins frameftir degi sem bauð upp á talsverða útiveru og skemmtun fyrir drenginga. Þegar verulega tók að hvessa upp úr hádeginu voru hoppukastalarnir opnaðir inn í leikskála og formlegu þythokkýmóti komið af stað, taflmótið hélt einnig áfram. Milli kl. 14-16 komu síðan margir gestir á svæðið þegar foreldrar/forráðamenn og aðrir nánir ættingjar höfðu tækifæri til þess að líta í heimsókn. Næg dagskrá var í boði fyrir strákana sem léku sér vel á meðan heimsókninni stóð og sumir þeirra sýndu gestum sínum einnig svæðið. Boðið var upp á tvær greinar í frjálsum, en þær voru 400 m hlaup og þrístökk. Einnig var haldin vítaspyrnukeppni og smíðaverkstæðið opið eins og flesta daga. Eftir kaffi voru flestir í íþróttahúsinu þegar verst lét í vindinum og rigning fór yfir svæðið. Þó voru nokkrir drengir sem lögðu af stað í ævintýraleiðangur út í nýsmíðaðann skógarkofa þar sem lítill varðeldur var tendraður og sykurpúðar voru grillaðir. Þótti þetta ferðalag vera mikið ævintýri. Kvöldvakan var á sínum stað og þekkar rökkva tók hægði verulega á vindinum.

Maturinn í gær var ekki af verri endanum, en í hádeginu fengum við lasagne, og í kaffinu voru síðan hlunkakökur, hvít skúffukaka með bleiku kremi og bananabrauð. Í kvöldmatnum var síðan ávaxtasúrmjólk með súkkulaðispæni sem er sígild hér í Vatnaskógi og nýtur mikilla vinsælda og loks voru ferskir ávextir í kvöldkaffinu.

Dagskráin og starfið með strákunum hefur verið þétt síðastliðinn sólarhring og þessvegna hefur því miður ekki unnist eins mikill tími og við vildum til að færa inn myndir á þessa síðu, en stefnum að því að klára að færa inn síðustu myndir úr flokknum 1. ágúst og vonandi náum við að setja inn hluta myndanna fyrr ef tími gefst til.

Við stefnum að því að birta fréttir úr Vatnaskógi hvern dag í kringum hádegið (rétt fyrir eða eftir hádegismat) með helstu upplýsingum um hvað er að gerast í skóginum og einnig munum við birta myndir reglulega HÉR á flickr. Ef þú þarft að hafa samband við okkur í Vatnaskógi, þá er hægt að senda tölvupóst á netfangið benjaminrs@hi.is eða david@advel.is og um að gera að hafa samband í símatíma milli kl. 11-12 á morgnana í síma: 433-8959.

 

Fyrir hönd forstöðumanna,

Davíð Örn Sveinbjörnsson