Þá er fyrsti flokkur sumarsins hafinn í Vatnaskógi. Það var góður hópur af fjörugum drengjum sem mættu til okkar í gær. Ferðin upp í skóg gekk vel enda blíðskaparveður á leiðinni.
Þegar upp í skóg var komið tók skógurinn á móti okkur í allri sinni dýrð og er alltaf gaman að keyra inn í rjóðrið sem umlykur helstu húsin hjá okkur. Drengirnir byrjuðu á því að setjast við sín borð með sínum foringjum, því næst var borinn fram dýrindis fiskur sem gæti hæglega verið beint úr Eyrarvatninu okkar, það er að segja ef það væri einhver veiði í vatninu.
Næst var farið yfir helstu reglurnar hjá okkur og síðan var komið að því að koma sér fyrir í svefnskálanum, en nú sofa allir í Birkiskála. Hluti hússins hefur nýlega verið tekinn í notkun og er öll aðstaða í því mjög góð.
Dagskráin á fyrsta degi var heldur ekki af verri endanum. það tekur smá tíma að kynna sér staðinn, enda stórt svæði og mörg hús sem þarf að skoða. Íþróttahúsið var strax opnað, þar sem boðið var upp á ýmsa leiki og keppnir. Einnig er hægt að skella sér upp í sófa á efri hæðinni og grípa góða bók eða syrpu ef menn vilja slaka á.
Vinsældir málmleitartækkjanna okkar eru miklar og mátti sjá stráka inni á milli trjánna við leita að fornum fjársjóðum.
Eftir góða kvöldvöku í gærkvöldi var haldið í svefnskála, enda margir orðnir mjög þreyttir eftir viðburðarríkan dag. Við stefnum á að setja inn fréttir úr flokknum á hverjum degi.
Bestu kveðjur úr skóginum
Ásgeir Pétursson, forstöðumaður