Það er góð stemning hér í Vatnaskógi þessa dagana. Það hefur hlýnað í veðri og lægt sem þýðir að við getum boðið upp á bátana í dag. Í hádeginu í dag fáum við gómsætan kjúklingarétt og svo pasta+hvítlauksbrauð í kvöldmatinn. Í morgunmat fengum við heitt kakó og brauð og svo verður hörku kaffitími með kökum og kryddbrauði.

Gærdagurinn var einnig mjög góður. Strákarnir fengu frábært lasagna í hádegismatinn og svo auðvitað hina klassísku ávaxtasúrmjólk í kvöldmatinn, hún sló í gegn! Í gær voru margir dagskráliðir í boði og nýttu drengirnir sér þá vel, þeir eru duglegir að taka þátt og finna sér eitthvað við sitt hæfi. Íþróttahús, frjálsar íþróttir, fótbolti, smíðaverkstæði, útileikir, lestrar- og spilastund í Birkiskála og margt fleira. Eftir hádegi í gær fórum við svo í hinn sívinsæla hermannaleik út í Oddakoti. Hermannaleikur er eins og klemmuleikur, tvö lið sem eiga að reyna ná klemmu af öxl strákanna í hinu liðinu. Strákarnir tóku allir þátt og skemmtu sér vel. Eftir kvöldkaffi var svo kvöldvaka þar sem strákarnir voru með hæfileikasýningu. Það voru margir sem skráðu sig og sýndu hæfileikana sína, mjög skemmtilegt allt saman.

Það koma inn fleiri myndir úr flokknum í dag, sennilega í kringum hádegið.

IMG_3462

 

Meira síðar!

– Hreinn Pálsson, forstöðumaður