Það er ávallt mikil gleði í Vatnaskógi þegar rúturnar renna í hlað og nýr flokkur hefst. Fjölmargir drengir eru að stíga sín fyrstu skref í sumarbúðum og mæta til okkar fullir eftirvæntingar og eiga eftir að koma heim nokkrum sentimetrum hærri. Veðrið í gær var gott, þó að ekki hafi reynst mögulegt að hleypa drengjunum á báta, en það var einfaldlega of hvasst. Ýmislegt annað var þó í boði fyrir dregnina og spreyttu margir sér í fyrsta skipti á spjótkasti, en í dvalarflokkum hér er alltaf frjálsíþróttakeppni á milli borða (hópa). Það fer einnig fram öflug deildarkeppni í fótbolta, Svínadalsdeildin, en þá keppa borðin sín á milli. Það er alltaf hægt að fara á smíðaverkstæðið og skapa eitthvað undir handleiðslu leiðbeinenda. Í Leikskálanum geta drengirnir leikið sér í körfubolta, fótbolta og eða handbolta þar er líka hægt að grípa í fótboltaspil, borðtennis, billjard, hin ýmsu spil og lesa heimsbókmenntirnar. Af heimsbókmenntunum í Vatnaskógi er það helst að frétta að Andrés nokkur önd er afskaplega vinsæll! Drengirnir fóru að sofa kl. 22:30 og vöknuðu hressir í morgun kl. 8:30!
Það eru orð að sönnu að matur sé mannsins megin, það er því alltaf nóg að borða í Vatnaskógi. Í gær fengu dregnirnir kjúklingaleggi, franskarkartöflur og salat í hádegismat, í kaffinu var skúffukaka og kryddbrauð og í kvöldmat var boðið upp á hina víðfrægu ávaxtasúrmjólk Vatnaskógar! Í kvöldkaffinu er alltaf létt snarl, oftast kex eða ávextir. Í morgunmat var boðið upp á hafragraut og morgunkorn og í hádeginu í dag fengu dregnirnir að velja á milli ýsu eða bleikju og flestir völdu bæði.
Í dag er fínasta veður sól og 14 stiga hiti og smá gola við gátum því opnað bátana og lætur nærri að allir 87 drengirnir hafi farið á bát í dag. Við fengum góða gesti frá Danmörku í dag, Sirkus Flik Flak, sem er barna-og unglingasirkus og sýndu þau listir sýnar við mikinn fögnuð drengjanna og starfsfólks.
Myndir segja meira en 1000 orð eins og sjá má hér: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157709386668982