Í dag er veisludagur í Vatnaskógi og síðasti heili dagurinn í flokknum. Til þessa hefur flokkurinn gengið áfallalaust fyrir sig og drengirnir staðið sé ótrúlega vel – þeir hafa verið til fyrirmyndar í flestu. Margir eru að gista að heiman í fyrsta skipti á ævinni og koma þeir heim líklega nokkrum sentimetrum hærri og stoltir af sjálfum sér! Lúsmýið hefur aðeins látið á sér kræla, en við erum með „afterbite“ fyrir þá sem klæjar mikið, en flestir virðast ætla að sleppa vel við þennan leiðinda fylgifisk sumarsins! Það hefur rignt talsvert í dag, en drengirnir láta það ekki á sig fá og eru mikið út við í leikjum, á bátum og einhverjir hafa skellt sér í skógargöngur, en Vatnaskógur er eins og nafnið gefur til kynna umvafinn svakalegum ævintýraheim sem drengirnir mega ferðast um óhindrað.

Á veisludegi er löng hefð fyrir því að hlaupa Brekkuhlaupið, en þá er hlaupin leiðin frá Gamla skála upp að hliði og til baka, um það bil 1,8 km. Hlaupið er alltaf vinsælt og tóku margir þátt í dag, en það náði því miður enginn að setja skógarmet, en það er í flokki 9-11 ára drengja tæpar 8 mínútur. Í dag kepptu úrvalslið drengja, landsliðið og draumaliðið, við lið starfsmanna og fór svo að reynslan sigraði og unnu starfsmenn bæði liðin naumlega. Landslið drengja og draumaliðið kepptu sín á milli og skildu jöfn að loknum 20 mínútna leik 2-2 og sigraði landsliðið í vítaspyrnukeppni. Í kvöld verður veislukvöldverður og býður matráðurinn upp á kalkúnaveislu með ís í eftirrétt. Eftir kvöldmatinn verður veislukvöldvaka þar sem boðið verður upp á leikrit, „sketsar“ úr flokknum, verðlaunaafhending og lokakafli framhaldssögunar fluttur!

Á morgun er heimferðardagur og leggjum við í hann með drengina rétt fyrir kl. 16 og er heimkoma áætluð kl. 17 á Holtaveg 28.

Myndirnar eru á sama stað og síðast og einhverjar hafa bæst við!