Í gær var enn einn dýrðardagurinn í Vatnaskógi á þessu sumri. Dagskráin var um mest með venjubundnum hætti, frjálsar íþróttir, knattspyrna, skákmót og útileikir voru meðal fjölmargra dagskrártilboða yfir daginn. Þá var jafnframt boðið upp á vatnafjör, þar sem drengjunum var leyft að vaða og synda, stökkva á vatnatrampólíni og fara í ævintýraferð á vatnstuðru sem er dreginn af mótorbát. Það er óhætt að segja að drengirnir sem tóku þátt hafi notið sín, þó vissulega sé vatnið bæði vott og kalt.

Gærdagurinn hófst eins og allir dagar í Vatnaskógi með signingu og morgunbæn áður en drengirnir fengu morgunmat. Eftir morgunverð var síðan fánahylling, sem er hefð hér í Vatnaskógi sem á sér 90 ára sögu og á sér upphaf í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar á árunum fyrir síðari heimstyrjöldina. En Vatnaskógur var stofnaður 1923, þegar Ísland var enn undir dönsku konungsvaldi. Að lokinni fánahyllingu var síðan morgunstund þar sem við ræddum við drengina um mikilvægi þess að þekkja til trúarlegra hefða og texta, óháð því hvaða trúarskoðanir við aðhyllumst og markmið Vatnaskógar væri meðal annars að kynna kristna trúarhefð og atferli fyrir drengjunum. Þannig væri mikilvægt að þekkja til Biblíunnar og hvers konar rit það sé(u) enda hefði það áhrif á líf og lífskoðanir milljarða einstaklinga um allan heim.

Framundan í dag er fjölbreytt dagskrá, þar sem hápunktur dagsins er klemmuleikur, sem hefur í áratugi haft nafnið hermannaleikurinn. Þetta er einhver allra vinsælasti leikurinn hér í Vatnaskógi og þrátt fyrir að gagnrýna megi hugtakanotkun og framsetningu leiksins hér í skóginum (sem er umræða sem starfsfólkið á með reglubundnum hætti). Þá verður stemmningin alltaf frábær í kringum því sem næst hefðbundinn eltingaleik.

Hægt er að sjá ljósmyndir frá 6. flokki á Flickr svæði KFUM og KFUK.  Slóðin á myndasafnið er: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157709494962811. Við leitumst við að sýna yfirlitsmyndir af verkefnum drengjanna og hópmyndir þegar það á við, en forðumst að sýna myndir af einstökum drengjum í samræmi við lög um persónuvernd.

Ef þú þarft að hafa samband við okkur í Vatnaskógi, er hægt að senda tölvupóst á netfangið elli@vatnaskogur.net.