Nú er fyrsta deginum í öðrum ævintýraflokki sumarsins lokið. Margt var til gaman gert, boðið var upp á leiki, knattspyrnu, frjálsar íþróttir og báta. Kvöldvakan var að venju fjörug, boðið upp á leikrit, framhaldssögu um Najac, 12 ára dreng frá Haiti og loks talaði Hreinn foringi um dæmisögu Jesú um góða hirðinn.

Drengirnir voru allir komnir undir sæng eða inn í svefnpoka um 23:30. Það virtist aðeins minna um lúsmý en í síðustu viku, enda smávægileg rigning en við munum sjá betur þegar líður á daginn í dag, hvort drengirnir voru eitthvað bitnir.

Drengirnir voru vaktir í morgun kl. 8:30, og eftir morgunverð og Biblíulestur er hefðbundinn Skógarmannamessa eða guðsþjónusta í sal Gamla skálans. Framundan í dag er síðan fjallganga á Kamb. Boðið verður upp á báta, spjall og spil og margt fleira. Einhverjir knattspyrnuleikir verða á dagskrá og íþróttahúsið verður opið.

Hægt verður að sjá ljósmyndir frá 7. flokki á Flickr svæði KFUM og KFUK þegar líður á flokkinn. Við höfum þó dregið verulega úr myndbirtingum miðað við fyrri ár, til að vernda og virða rétt drengjanna til einkalífs í samræmi við Evrópureglur um persónuvernd.

Ef þú þarft að hafa samband við okkur í Vatnaskógi, er hægt að senda tölvupóst á netfangið elli@vatnaskogur.net.


Um starfsfólkið

Starfsfólk sem annast dagskrá og umönnun drengjanna eru Benedikt Guðmundsson, Hjalti Jóel Magnússon, Hreinn Pálsson, Gunnar Hrafn Sveinsson, Dagur Adam Ólafsson, Ísak Jón Einarsson, Fannar Hannesson og Gestur Daníelsson.

Eldhúsi og þrifum er stýrt af Valborgu Rut Geirsdóttur en henni til aðstoðar eru Salóme Pálsdóttir, Hans Patrekur, Sara Lind og Harpa Vilborg Schram Ragnarsdóttir. Þess utan verða nokkrir matvinnungar á svæðinu, ungir framtíðarleiðtogar sem koma sem sjálfboðaliðar í skóginn og grípa í hvers kyns verkefni á svæðinu, hvort sem það er aðstoð í gönguferðum, uppvask, smíðar, frágangur og tiltekt á svæðinu eða skipulag leikja undir umsjón foringja. Matvinnungar þessarar viku eru m.a. Rannveig Ögn, Brynjar Karl Guðmundsson, Dagur Ingi Viðarsson, Bergur Helgi, Ása Hrönn og Elín Edda.

Þá verða Hákon Arnar Jónsson, Þórir Sigurðsson og Sigurður Jóhannesson í flokknum og koma að ýmsu daglegu viðhaldi á tækjum og húsnæði.

Yfirumsjón með öllu sem fram fer í Vatnaskógi þessa vikuna er síðan í mínum höndum. Ég heiti Halldór Elías Guðmundsson kallaður Elli, en ég kom fyrst til starfa í Vatnaskógi í júní 1991 (Nánar um Halldór).