68 hressir krakkar mættu uppí Vatnaskóg um hádegisbil í dag (fös). Soldið ójöfn kynjaskipting, en hér eru 12 stelpur og 56 strákar. Okkur sýnist þau vera að ná vel saman þrátt fyrir margar mismunadi týpur, góð blanda bara 🙂 Það fyrsta sem við gerðum var að setjast inn í matsal, þar sem við munum borða allar máltíðir vikunnar. Þau röðuðu sér á 6 borð (1.-6. borð) og allir vinir fá að sitja saman. Borð-félagar þínir eru liðið þitt í vikunni; hvert borð keppir við hin í hegunarkeppninni, fótboltanum og frjálsíþróttakeppninni. Á hverju borði eru 1-2 borðforingjar sem að borða með þeim, koma þeim í háttin á kvöldin og sjá um þá í vikunni. Á hverju borði eru 10 – 13 krakkar.
Auk okkar Grímu og Hreins, forstöðufólks, er mjög flott og vant starfsfólk hér þessa vikuna. Eftirfarandi foringjar sjá um eftirfarandi borð;
Mirra Kristín og Jóna Alla – 1.borð
Friðrik Páll – 2.borð
Dagur Adam – 3.borð
Ísak Jón – 4.borð
Þórdís – 5.borð
Davíð – 6.borð
Þegar þau voru búin að raða sér á borðin var farið yfir nokkrar reglur svo fóru þau útí Birkiskála, fundu sér herbergi og komu sér fyrir. Stelpurnar eru í D-álmunni og dreifðu sér í 3 herbergi. Strákarnir taka A, B og C álmur og eru í 10 herbergjum. Þegar allir voru komnir með rúm og búnir að koma sér fyrir var hádegismatur; steiktur fiskur í raspi með frönskum og salati. Beint eftir mat fóru allir út í íþróttahús þar sem við fórum í hóp-og nafnaleiki. Svo tók við frjáls dagskrá. Í boði var smíðaverkstæði, spil og tónlist í salnum í Birkiskála og íþróttahúsið opið. Þar er fótboltaspil, billjard, boltar, bækur og borðtennis. Í kaffinu sem var kl 15:30 var í boði jógúrtkaka og brauð með áleggi. Frjálsa dagskráin hélt áfram eftir kaffi en þá var líka boðið uppá fótbolta, mörgum til mikillar gleði, og fyrstu frjálsu íþróttina – kúluvarp. Á hverjum degi er boðið uppá 1-2 frjálsar íþróttir og þeir keppa sem vilja. Í kvöldmat var blómkálssúpa og nýbakað brauð. Eftir mat byrjaði Svínadalsddeildin (fótboltakeppni). Það náðist í 4 lið og munu þau keppa tvisvar sinnum öll á móti öllum. Sigurvegararnir verða Svínadalsmeistarar og fá bikar á veislukvöldvöku. Talandi um bikara, þá er búið að kynna bikara staðarins fyrir krökkunum. Á veislukvöldinu eru gefnir bikarar fyrir hegðunarkeppnina, frjálsíþróttamann/konu flokksins, fótbotlamótið, biblíuspurningakeppnina, listakeppnina ofl. Kl 21 var kvöldvaka þar sem við syngjum, segjum brandara, erum með leikrit, hugleiðingu og framhaldssögu. Góð stemning og krakkarnir bara frekar dugleg að hafa þögn og fylgjast með. Kvöldkaffi í beinu framhaldi, póló-og mjólkurkex. Svæfing gekk ágætlega, mikill spenningur en þau voru samt orðin þreytt eftir daginn. Síðasta barn sofnað laust fyrir miðnætti.
Heilt yfir var dagurinn bara mjög góður, hópurinn er skemmtilegur og flestir komnir hingað til þess að njóta, skemmta sér og vera skemmtileg.
Ég reyni að setja inn fréttir um 11 leytið á hverjum degi frá deginum áður, svo koma líka myndir á netið (getið klikkað hér). Reyndar bara fáar frá gærdeginum, en þær koma fleiri inn í kvöld eða fyrramálið.
Dagurinn í dag (lau) byrjar vel, gott veður en mikill vindur úti á vatni svo við höfum því miður ekki getað opnað bátana. Spáin er samt fín fyrir helgina amk, vindurinn á að detta niður.